Bræðslan Borgarfirði eystra
Bræðslan er öðruvísi tónlistarhátíð. Einstök staðsetning hennar við Borgarfjörð eystri laðar að tónlistarunnendur sem og þau sem vilja upplifa ólýsanlegar sumarnætur á Borgarfirði eystra, þegar rökkur haustsins byrjar að láta á sér kræla og sólsetrið skartar sínu fegursta. Í ár eru aðaltónleikar Bræðslunnar haldnir 27. júlí.
Fyrsta Bræðsla fór fram árið 2005, þegar söngkonan og lagahöfundurinn Emilíana Torrini hélt tónleika í gömlu síldarbræðslunni á Borgarfirði. Tónleikarnir og óvenjuleg umgjörð þeirra heillaði tónleikagesti upp úr skónum, og síðan þá hafa tónleikar í bræðslunni verið fastur liður í viðburðardagskrá sumarsins.
![]()
Fjölskylduvæn náttúruparadís
Segja má að Bræðslan sé fjölskylduhátíð – skipulögð af bræðrunum Magna og Heiðari Ásgeirssonum. Á hverju ári leggur fjölbreyttur hópur fólks leið sína á Bræðsluna sem spannar heilu fjölskyldurnar, unga sem aldna, sem og fólk ættað af svæðinu.
Viðburðurinn sameinar tónleikaupplifun og margrómaða fegurð Borgarfjarðar eystri sem skilur engan eftir ósnortinn á löngum sumarkvöldum. Andrúmsloftið er fjölskylduvænt og Borgfirðingar höfðingjar heim að sækja. Allt þetta setur tóninn fyrir þá sérstöku upplifun sem Bræðslan er og laðar gesti að ár eftir ár.
![]()
Eftirsótt tónlistarveisla
Aðalviðburðurinn á Bræðslunni fer yfirleitt fram á næstsíðasta eða síðasta laugardeginum í júlí. Undanfarin ár hefur hátíðin breitt úr sér með mörgum off-venue tónleikum og öðrum viðburðum sem haldnir eru í vikunni á undan. Hátíðin er eftirsótt meðal áheyrenda sem og tónlistarfólks sem keppist við að komast að á hverju ári.
Margir þekktir listamenn hafa komið fram á Bræðslunni – bæði alþjóðlegir og íslenskir – þar má nefna Damien Rice, Belle and Sebastian, Eivör Pálsdóttir, Of Monsters and Men, Megas, Hjálma og Bríeti.
![]()
Bræðslan – hátíð á heimsmælikvarða
Hefurðu ekki farið á Bræðsluna? Miðar fara í sölu við upphaf hvers árs og eru fljótir að fara. Það hefur þó ekki stoppað ferðaglaða tónlistarunnendur sem mæta einfaldlega á svæðið með enga miða en vilja ólmir upplifa þá einstöku stemningu sem fylgir Bræðslunni – enda hátíð á heimsmælikvarða.
Við bjóðum upp á flug daglega til Egilsstaða sem færir þér Austurland nær. Veðursældin fyrir austan hefur leikið við landann síðustu ár og því tilvalið að kynna sér það sem fjórðungurinn hefur upp á að bjóða.
![]()
Kíktu á stemninguna sem var á Bræðslunni árið 2021, en við tókum viðtöl við tónlistarfólk hátíðarinnar og upplifun þeirra af Bræðslunni sem og Borgarfirði: