Pingdom Check
11/14/2025 | 2:40 PM

Íslenskan í háloftunum

Flugmál er sérstakt fyrirbæri. Það er í stöðugri þróun, notað af tiltölulega þröngum hópi, og má með sanni segja að enginn verði fullnuma í því. Í flugstjórnarklefanum er töluð ein útgáfa, í farþegarýminu önnur, flugvirkjar tala sína eigin mállýsku og það sama á við um starfsfólk á flughlaði og inni í flugstöð.

Það getur verið áskorun að halda íslenskunni á lofti í jafn alþjóðlegu umhverfi og flugiðnaðinum. Stór hluti vinnudags þeirra sem starfa við flug fer óumflýjanlega fram á fleiri tungumálum en okkar ylhýra. Opinbert tungumál háloftanna er enska, farþegar koma víða að og starfsfólk flugvalla erlendis er afar ólíklegt til að brydda upp á samræðum á íslensku.

Það þýðir þó ekki að íslenskan sé ekki við lýði í flugheiminum. Þvert á móti er hún svo rík af flugmáli að Árnastofnun heldur úti sérstakri flugorðabók.

Möndulforþjöppur, snarkollur og knývendar

Í tilefni af degi íslenskrar tungu spurðum við starfsfólk Icelandair hver þeirra uppáhalds flugorð væru. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og alls bárust 71 orð.

Orðið knývendir naut nokkurra vinsælda en það á við um búnað sem er ætlað að draga úr hraða í lendingu með því að venda knýnum, þ.e.a.s. breyta stefnu loftflæðis frá hreyflinum. Þá var orðið flugfreyja ofarlega á lista, enda gamalgróið og gjarnan talið með fegurstu orðum íslenskrar tungu.

Flest þeirra orða sem starfsfólk nefndi voru nýyrði, þau voru samsett orð sem lýstu fyrirbærinu nokkuð nákvæmlega. Mögulega er flugmálið litað af fyrstu tilraununum til þess að smíða orð um flug á borð við þrýstiloftsflugvél sem reyndar laut lægra haldi fyrir þjálla orði, þota, sem öllu fleiri þekkja í dag.

Sum orðanna voru bransamál á borð við ummi. Það er stytting á enskunni „unaccompanied minor“ og á við um börn sem ferðast án fylgdar fullorðinna. Nokkrar slettur komust á lista, dæmi um slíkt er orðið „livery“ sem á við um útlit flugvélarinnar. Þó hefur verið gerð tilraun til þess að íslenska orðið sem skrúður en það hefur ekki náð fótfestu.

Starfsfólk Icelandair hefur lagt hönd á plóg við íslenskun flugmáls. Dæmi um nýyrði smíðuð af starfsfólki okkar eru orðið grenndarflug sem á við styttri flug milli landa og flug innanlands, "domestic and regional flights" á ensku. Annað dæmi er orðið snjallmerki sem er íslenskun á hugtakinu "eBagtag". Það eru tæki til þess að merkja innritaðan farangur og ætlað er að koma í stað fyrir pappírsmerkin sem hengd eru á töskur hverju sinni.

Þrátt fyrir alþjóðlegt umhverfi flýgur íslenskan enn. Hún lifir í daglegu starfi, í orðaforðanum sem við notum og nýyrðunum sem við bætum við. Þegar við sköpum og notum íslensk hugtök tryggjum við að tungumálið okkar haldi áfram að lifa og vera aðgengilegt, jafnvel þegar viðfangsefnin eru flókin og tæknileg.

Uppáhalds flugorð starfsfólks Icelandair:

  • Knývendir
  • Flugskýli
  • Forgangsbyrðing
  • Vegabréfaeftirlit
  • Flugleggur
  • Ummi
  • Þurrvigtarmassi
  • Háloftin
  • Flugvera
  • Vængbarð
  • Grenndarflug
  • Möndulforþjappa
  • Flughorfsskjár
  • Byrðing
  • Vegabréf
  • Ofris
  • Meðvindur
  • Áhafnarmeðlimur
  • Flugfreyja
  • Svifflug
  • Sigmet
  • Brotthvarfsflug
  • Fráhvarfsflug
  • Flugtak
  • Aðflug
  • Tengifarþegar
  • Tengiflug
  • Lyftikraftsviðnám
  • Áfallshorn
  • Vængendahvirflar
  • Brottfararspjald
  • Aðflugslágmark
  • Standbæ
  • Læverí
  • Endavængill
  • Vænglingur
  • Flugröst
  • Þota
  • Aðflugshallaljós
  • Snúningur
  • Flugstjórnarklefi
  • Miðlínugeisli
  • Aðflugshallageisli
  • Flugtaksheimild
  • Lendingarheimild
  • Þjálfunarflugstjóri
  • Lyftispillir
  • Raufungur
  • Flugvirki
  • Snarkolla
  • Landgöngubrú
  • Kvaka
  • Frámiðjuþjappa
  • Stemmurör
  • Stjörnuhreyfill
  • Vængbörð
  • Iðustreymi
  • Skrópfarþegi
  • Þotuþreyta
  • Lyftispillir
  • Flughermir
  • Gormflug
  • Miðlínugeisli
  • Stefningar
  • Þyrla
  • Snefnusnúða
  • Hallastýri
  • Hæðarstýri
  • Loftfar
  • Flapi