Garda vatnið er perla á Norður-Ítalíu og eitt stærsta stöðuvatn landsins.
Þarna er einstakt andrúmsloft, enda er svæðið lífleg paradís við rætur Alpafjallanna á Ítalíu.
Það er þekkt fyrir fjölbreytta afþreyingu og mikla náttúrufegurð. Þarna er mikil ólífu- og vínræktun sem einkennir umhverfið og í nágrenninu er hægt að fara í vínsmökkun, heimsækja kastala og falleg þorp, versla og borða góðan mat. Við vatnið eru líka margar gönguleiðir og aragrúi hjólreiðastíga sem liggja um fjöllin í kring og meðfram vatninu. Vatnasportið er auðvitað í boði og þar má nefna siglingar, kajakferðir, brimbretti, SUP-bretti, veiði, snorkl og köfun.
Gardaland er einn stærsti skemmtigarður Ítalíu og hentar öllum aldri. Þar eru rússíbanar, ýmiss konar leiktæki, fallturn og hringekjur.
Við Garda vatn eru veitingastaðirnir allt um kring og flestir leggja áherslu á hráefni úr héraði, svo sem olífuolíu, ferskt pasta, góða sjávarrétti og heimagerðan ís.
Gisting við vatnið er margskonar, allt frá lúxus hótelum til notalegra gistiheimila. Margir eru með útsýni yfir vatnið, heilsulind, sundlaug og veitingastað á staðnum.
Vatnið nær að teygja sig inn í þrjú héruð, Lombardia, Veneto og Trentino-Alto Adige og býður þar af leiðandi upp á fjölbreytt landslag.
Svæðið býður upp á óteljandi möguleika og er kjörinn áfangastaður fyrir ævintýraþyrsta sem vilja uppgötva töfra Ítalíu.
Við mælum með að farþegar hafi bílaleigubíl á meðan dvöl stendur, þar sem svæðið er víðfeðmt og almenningssamgöngur takmarkaðar. Með bíl er auðvelt að kanna falleg þorp, vínekrur og fjallavegi á eigin hraða og njóta þess besta sem Gardavatn hefur upp á að bjóða. Við bjóðum einnig upp á að bæta við akstri til og frá flugvelli í bókunarferlinu fyrir þá sem það kjósa.