Þetta verður upplifun!
Kántrí og dansferð til Nashville með Ninju hjá Línudansskólanum 2 .– 7. september 2026.
Þú þarft ekki að vera vanur dansari til að elska þessa ferð, bara opinn fyrir nýjum upplifunum, góðu fólki og smá suðurríkjahita.Fyrri hluti – Nashville eins og í bíómyndunum 2. - 4. september
Við byrjum ævintýrið í hjarta Nashville, þar sem kántrítónlistin hljómar alls staðar og ljósaskiltin lýsa upp Broadway í allri sinni dýrð.
Við gistum á Tempo by Hilton Nashville downtown sem er rétt hjá Honky Tonk Strip, þar sem barir með lifandi tónlist raða sér í röð og stemningin er einstök — Las Vegas hittir villta vestrið. Þetta er eitthvað sem erfitt er að lýsa í orðum; maður verður einfaldlega að upplifa þetta að minnsta kosti einu sinni á ævinni.
Á daginn bíða kántríbúðirnar og ilmurinn af stígvélaleðrinu. Fullkomið tækifæri til að uppfæra „country lookið“. Dásamlegir hattar, kúrekastígvél, belti, sylgjur og allt sem kántríaðdáendur girnast — búð eftir búð.
Trolley-rútur með leiðsögn eru frábær leið til að sjá það helsta í borginni og í miðbænum má finna glæsileg söfn eins og Country Music Hall of Fame. Ef hitinn segir til sín þá er smá hvíld á hótelinu við sundlaugarsvæðið fullkomin leið til að hlaða aðeins batteríin á milli stunda.
Maturinn – ævintýri út af fyrir sig. „Hot Chicken“ á Hattie’s er nauðsyn. Þar fyrir utan er úr nægu að velja í „Southern Comfort Food“ eins og rif, mac & cheese, cornbread og annað sem suðurríkjamaturinn er þekktur fyrir. Þeir sem vilja prófa eitthvað öðruvísi ættu ekki að sleppa góðum Gumbo.
Seinni hluti – Nashville Dance Fest dagana 4. - 7. september
Í seinni hluta ferðarinnar flytjum við okkur yfir á The Inn at Opryland, A Gaylord Hotel í Music Valley, aðeins nokkur skref frá The Nashville Palace, frægasta Honky Tonk staðnum í Nashville, þar sem Nashville Dance Fest fer fram og þaðan er einnig stutt í hina frægu Grande Ole Opry tónleikahöll.
Nashville Dance Fest er kántrí- og dansveisla og alvöru amerísk stemmning, þar sem fólk kemur alls staðar að úr Bandaríkjunum til að skemmta sér saman og læra dans. 3ja daga passi er innifalinn á hátíðina í ferðinni. Sjá myndband frá hátíðinni.
Á Nashville Dance Fest getur þú verið í danstímum allan daginn yfir helgina ef þú vilt. Dagskráin á Nashville Dance Fest er mjög fjölbreytt og allir sem hafa gaman af því að dansa geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem að maður er algjör byrjandi eða vanur dansari. Þar er dagskrá með kennslu á öllum getustigum samtímis á mismunandi svæðum, bæði í línudansi fyrir einstaklinga og Kántrí Swing og Two step kennslu fyrir pör.
Heimsmeistarakeppnin í Honky Tonk fer einnig fram á Nashville Dance Fest, ásamt keppnum í línudansi og paradönsunum og gaman að setjast inn í Nashville Palace og kíkja á þær yfir daginn ef fólk vill taka sér hlé frá dansi, kæla sig í loftkælingunni og fá sér eitthvað kalt á barnum.
Ekki dansari en langar að vera með í partíinu? Þú getur auðveldlega notið ferðarinnar án þess að taka danstíma. Skoðaðu annað á daginn og komdu með á kvöldin þar sem lifandi tónleikar og brellandi stemning ráða ríkjum, bæði inni á The Nashville Palace og á útisviðinu.
Eftir þessa upplifun munt þú aldrei horfa á kántrísenu í bíómynd með sömu augum.
Opry Mills, stærsta verslunarmiðstöð Tennessee, er skammt frá, Madam Toussaud vaxmyndasafnið og Grand Ole Opry tónleikahöllin. Gaylord Opryland Gardens, sem eru hreint ótrúlegt mannvirki, eins og klippt út úr ævintýri eru einnig rétt hjá. Stærð garðsins eru níu ekrur og inniheldur 50 þúsund tegundir af hitabeltisplöntum, síki renna hringinn í kringum svæðið og bátsferðir í boði, fossar, ljósadýrð og góðir veitingastaðir. Það eru fríar rútuferðir frá hótelinu yfir á þessa staði og til baka á 30 mínútna fresti ef fólk vill spara sporin.
Við hliðina á Nashville Dance Fest má einnig finna Scoreboard dive bar, sem er hrár og skemmtilegur bar sem býður upp á suðurríkjamat, spennandi drykki, lifandi kántrí tónlist allan daginn og stórt útisvæði þar sem hægt er að njóta sólarinnar og skammt undan eru nokkrar “Second-hand“ búðir fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða ýmsa gamla kántrí hluti og Kántrístjörnu fatnað.
Fararstjóri í ferðinni er Ninja hjá Línudansskólanum og hægt er að senda henni fyrirspurnir um ferðina á netfangið [email protected].
Athugið: