Pingdom Check

Hvaða skilyrði þarf umsækjandi að uppfylla?

  • Reynsla af þjónustu- og/eða umönnunarstörfum.
  • Mjög góða íslensku- og enskukunnáttu, önnur tungumálakunnátta er kostur.
  • Framúrskarandi samskiptahæfni og góða færni í teymisvinnu.
  • Jákvætt viðhorf og metnað til að ná árangri í starfi.
  • Þau sem fá boð í þjálfun þurfa að standast læknisskoðun.
  • Fæðingarár 2006 eða fyrr.

Ráðningarferli flugfreyja og flugþjóna

Ráðningarferlið getur tekið frá nokkrum vikum upp í mánuði. Ráðningarferli flugfreyja og flugþjóna hjá Icelandair er umfangsmikið og tekur tíma. Umsækjendum er þakkað fyrir skilninginn og þolinmæðina en ráðningarteymið gerir sitt besta að halda umsækjendum upplýstum um stöðu ráðningarferlisins yfir tímabilið. Ætla má að lokasvar við umsókn berist eigi síðar en í upphafi desember 2025.

Læknisskoðun er hluti af ráðningarferlinu

  • Læknisskoðun er hluti af ráðningarferlinu og ef umsækjandi kemst áfram í næstu lotu ferlisins, eftir viðtal við ráðningarteymið, þá er boðað í læknisskoðun.
  • Læknisskoðun er á kostnað umsækjanda og greiða þarf 28.130 kr. áður en skoðunin fer fram.
  • Standast þarf læknisskoðun og fá útgefið heilbrigðisvottorð áður en námskeiðsseta getur hafist. Tekið skal fram að sjúkdómsgreiningar og lyfjanotkun geta haft áhrif á útgáfu heilbrigðisvottorðs. Hægt er að ráðfæra sig við fluglækna fyrir frekari upplýsingar.
  • Umsækjendur þurfa að gangast undir vímuefnapróf í læknisskoðun.
  • Mikilvægt er að umsækjendur séu heilsuhraustir bæði líkamlega og andlega. Læknisskoðun byggð á EASA reglugerð er framkvæmd áður en þjálfun hefst. Alþjóðlegar reglur gilda um sjúkdómsgreiningar og lyfjanotkun áhafna. Þau sem taka reglulega lyf er bent á að ráðfæra sig við fluglækni.
  • Tekið skal sérstaklega fram að notkun á ADHD lyfjum er óheimil samkvæmt reglugerðum.
  • Umsækjandi með gilda læknisskoðun frá öðrum flugrekanda þarf að gangast undir læknisskoðun hjá þjónustuaðila Icelandair.

Hvernig er þjálfun háttað?

Grunnþjálfun flugfreyja og flugþjóna spannar allt að 8 vikur og skiptist upp í 2 aðskilin námskeið sem kallast Initial og Conversion. Þjálfunardeild Icelandair hefur umsjón með kennslunni sem fer að mestu fram á kvöldin og um helgar. Megin viðfangsefni þjálfunar snýr að öryggi, skyndihjálp, verklagi og þjónustu um borð.

Verkleg þjálfun fer fram í þjálfunarsetri á Flugvöllum 1 í Hafnarfirði að undanskildum einum degi sem fer fram í sundlaug á höfuðborgarsvæðinu. Framkallaðar eru aðstæður sem gætu komið upp í flugi t.d. eldur, reykur, ókyrrð, veikindi farþega sem og vinna með farþegum sem fylgja ekki fyrirmælum áhafnarmeðlima. Þessi þjálfun reynir á líkamlega og andlega þætti og því þurfa þátttakendur að vera vel á sig komnir, auk þess að vera vel syndir og geta aðstoðað aðra í vatni.

Þjálfun skiptist upp sem hér segir – með fyrirvara um breytingar

Initial

  • Bókleg » 9 kennslukvöld og 1 helgardagur.
  • Rafræn » 6 dagar (Nemendur þurfa að hafa gott aðgengi að tölvu eða spjaldtölvu á meðan námskeiði stendur).

Conversion

  • Bókleg » 21 kennslukvöld, 2 helgardagar og 1 þjálfunarflug.
  • Rafræn » 14 dagar (Nemendur þurfa að hafa gott aðgengi að tölvu eða spjaldtölvu á meðan námskeiði stendur).

Mæting og frammistaða á námskeiðum

Þátttaka og árangur á námskeiði eru metin sem mikilvægur hluti af heildarmati umsækjenda. Nauðsynlegt er að ljúka allri þjálfun með fullnægjandi hætti til að koma til greina fyrir ráðningu. Jafnframt er ítrekað að 100% mætingarskylda gildir á öllum dögum námskeiðsins. Með góðri ástundun og virkni er betur tryggt að nemendur búi yfir þeirri faglegu færni, öryggisvitund og þjónustulund sem starfið krefst.

Er starfið líkamlega erfitt?

Starf flugfreyju og flugþjóns er vaktavinnustarf sem flakkar á milli tímabelta heimsins. Vinnuumhverfi í háloftunum getur verið krefjandi þar sem loftþrýstingur er lægri en á jörðu. Það reynir því á líkamsklukkuna og mikilvægt að gæta vel að svefni og góðri næringu.

Hvernig er vinnuskrá sett upp?

Um miðjan hvern mánuð er gefin út vinnuskrá sem gildir fyrir mánuðinn á eftir.

Sumarstarfsfólk skuldbindur sig í 100% starfshlutfall að lágmarki í 3 mánuði yfir hásumarið, frá 1. júní til 31. ágúst. Frídagar eru samningsbundnir í áætlun hvers mánaðar og ekki er gert ráð fyrir að sumarstarfsfólk taki sumarleyfisdaga umfram þá. Sumarstarfsfólk, líkt og fastráðið starfsfólk, hefur þó tækifæri á að óska eftir ákveðnum dagsetningum fyrir samningsbundna frídaga.

Umsækjendur sem ljúka þurfa störfum fyrir 31. ágúst koma síður til greina.

Eru rútuferðir í boði til og frá höfuðborgarsvæðinu á vinnudegi?

Icelandair sér starfsfólki fyrir rútuferðum milli Keflavíkurflugvallar og Flugvalla í Hafnarfirði á vinnudögum. Brottfaratímar rútuferða koma fram á vinnuskrá.

Spurningar og svör

Hér finnur þú svör við algengum spurningum.