Pingdom Check

Forfallagjald

Viðskiptavinum Icelandair gefst kostur á að kaupa forfallagjald sem bætir ferðakostnað ef um veikindi verður að ræða hjá farþega.

Greiðsla forfallagjalds tryggir endurgreiðslu á þeim hluta fargjalds sem greiddur hefur verið til Icelandair og ekki fæst annars endurgreiddur ef viðskiptamaður getur ekki farið fyrirhugaða ferð. Komist farþeginn ekki í ferðina endurgreiðir Icelandair ehf. viðkomandi farseðla. Ef farþegi þarf að breyta ferðaáætlun eftir að ferð er hafin, mun Icelandair endurgreiða viðkomandi hluta farseðils (þann hluta farseðils sem hefur ekki verið notaður) eða breytingagjald (en ekki fargjaldamismun).

Nauðsynlegt er að framvísa undirrituðu læknisvottorði. Ef forfallagjald er ekki fyrir hendi, fæst engin endurgreiðsla þó að læknisvottorði sé framvísað.

Eingöngu er hægt að kaupa forfallagjald um leið og fargjald eða staðfestingargjald er greitt.

 

Forfallagjald flugfarseðla – Skilmálar 

1. Almennt

Um leið og fargjald eða staðfestingargjald er greitt er viðskiptamanni boðið að greiða sérstakt forfallagjald, sem gildir fyrir farseðla, sem greiddur er til Icelandair ehf. á viðkomandi reikningi.

Komist farþeginn ekki í ferðina endurgreiða Icelandair ehf. viðkomandi farseðla, ef farþegi þarf að breyta ferðaáætlun eftir að ferð er hafin, munu Icelandair endurgreiða viðkomandi hluta farseðils (þann hluta farseðils sem hefur ekki verið notaður) eða breytingagjald (en ekki fargjaldamismun) samkvæmt eftirfarandi skilmálum.

Forfallagjaldið bætir ekki ýmis þjónustugjöld s.s. bókunargjöld, lántökukostnað og endurgreiðslugjöld. Forfallagjaldið tryggir eingöngu endurgreiðslu vegna fargjalda sem greidd hafa verið til Icelandair. Það tryggir ekki kostnað vegna hótelgistinga og bílaleigubíla sem bókuð eru á www.icelandair.com, svo að dæmi séu tekin.

Farið er fram á vottorð undirritað af lækni. Ef forfallatrygging er ekki fyrir hendi, fæst engin endurgreiðsla þó að læknisvottorði sé framvísað.

2. Endurgreiðsla

2.1 Greiðsla forfallagjalds tryggir endurgreiðslu á þeim hluta fargjalds, sem greiddur hefur verið og ekki fæst annars endurgreiddur, ef viðskiptamaður getur ekki farið fyrirhugaða ferð vegna:

a) dauðsfalls, skyndilegs alvarlegs sjúkdóms eða slyss sem krefst sjúkrahúsvistar hans, maka hans, hvort sem um er að ræða maka samkvæmt hjónabandi eða staðfestri samvist, barna viðskiptamanns eða barnabarna, foreldra hans eða tengdaforeldra, afa hans, ömmu eða systkina.

b) verulegs eignatjóns á heimili hans eða í einkafyrirtæki sem gerir nærveru hans nauðsynlega (lögregluskýrsla liggi fyrir).

2.2 Framangreind tilvik skulu vera þess eðlis að óhjákvæmilegt sé að afturkalla áður gerða pöntun.

2.3 Forfallagjald er aldrei endurgreiðanlegt.

2.4 Greiðsla forfallagjalds tryggir ekki mögulegan fargjaldamismun vegna breytingar á dagsetningu flugs eftir að ferð er hafin.

3. Gildistaka

3.1 Það er skilyrði fyrir því að endurgreiðsluréttur stofnist að:

a) forfallagjald sé greitt;

b) viðskiptamanni sé ekki kunnugt um tjón eða hafi grun um yfirvofandi tjón sem stofnar til endurgreiðsluréttar, þegar forfallagjaldið er greitt.

3.2 Endurgreiðsluréttur gildir frá þeim tíma sem greindur er í kvittun fyrir greiðslu þess og fram að brottför.

4. Undanskilin áhætta

4.1 Endurgreiðsluréttur stofnast ekki vegna eftirfarandi tjónstilvika

a) tjóna sem verða vegna meiðsla sem menn veita sjálfum sér vísvitandi;

b) tjóna sem verða vegna veikinda sem tengja má til neyslu áfengra drykkja eða lyfja, utan lyfja sem tekin eru samkvæmt læknisráði, að frátöldum lyfjum vegna læknismeðferðar vegna notkunar ávana- og fíkniefna;

c) tjóna sem beint eða óbeint eru af völdum kjarnabreytingar, jónandi geislunar, mengunar af geislavirkum efnum, kjarnaeldsneytis og kjarnaúrgangsefnis eða af völdum styrjaldar, innrásarhernaðaraðgerða, borgararósta, uppreisnar, uppþots eða svipaðra aðgerða. Sama gildir um tjón sem beint eða óbeint eru af völdum jarðskjálfta, eldgosa, flóða, skriðufalla eða annarra náttúruhamfara;

d) tjóna sem verða vegna niðurfellingar eða seinkunar áætlunarferðar;

e) tjóna sem verða vegna sjúkdóms sem viðskiptamaður var haldinn er forfallagjald var greitt, eða meðferðar hans vegna sjá b-lið 3.1.

f) þjónustugjalda s.s. bókunargjalda, lántökukostnaðar og endurgreiðslugjalda.

5. Ráðstafanir vegna tjóns – Endurgreiðsla

5.1 Tilkynna skal tjón þegar í stað og framvísa læknisvottorði eða lögregluskýrslu ásamt ferðareikningi.

5.2 Endurgreiðsla fer fram innan 14 daga eftir að fullnægjandi sannanir hafa borist fyrir endurgreiðsluskyldu Icelandair ehf. samkvæmt skilmálum þessum og unnt er að ákveða upphæð endurgreiðslu. Vottorð svo og önnur gögn sem Icelandair ehf. kunna að krefjast til að geta lagt mat á endurgreiðsluskyldu sína ber viðkomandi að leggja fram á eigin kostnað.

5.3 Ef viðskiptamaður á jafnframt rétt á bótum úr vátryggingu vegna sama tjónsatburðar greiða Icelandair ehf. aðeins hlutfallslegar bætur.

6. Svik - Rangar upplýsingar

Skýri viðskiptamaður sviksamlega frá eða leyni atvikum er skipta máli um endurgreiðsluskyldu Icelandair ehf. glatar hann rétti sínum á hendur félaginu.

7. Heimili og varnarþing

Heimili Icelandair ehf. og varnarþing er í Reykjavík. Mál, sem rísa kunna vegna endurgreiðslu samkvæmt skilmálum þessum, skal reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.