Flug Icelandair til Newark flugvallar í New York hefst í dag | Icelandair
Pingdom Check
10/28/2013 | 12:00 AM

Flug Icelandair til Newark flugvallar í New York hefst í dag

Reglulegt áætlunarflug Icelandair  til Newark flugvallar í New York hefst í dag og verður fyrsta fluginu fagnað með móttökuathöfn við komuna vestur í kvöld. Flogið verður fjórum sinnum í viku, á mánudögum, þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum.

Icelandair hefur flogið til JFK flugvallarins í New York í rúm 65 ár og mun halda því áfram. Í sumar flaug Icelandair 14 sinnum í viku, eða tvö flug daglega, til JFK. Þá hefur einnig verið flogið daglega til borgarinnar í nokkur ár utan sumartímans.

“Flugleiðin til og frá New York hefur vaxið mjög og við teljum rétt að færa hluta af þessari starfseminni yfir á hinn alþjóðaflugvöllinn á New York svæðinu. Það skapar okkur og ferðaþjónustunni ný markaðstækifæri og eykur sveigjanleika og fjölbreytni í leiðakerfi okkar”, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Newark flugvöllurinn er í raun í New Jersey fylki, vestan við Hudson ána sem rennur við Manhattan. Hann þykir henta vel fyrir Manhattan og ýmis svæði í suður-, vestur- og norðurhluta New York og New Jersey, en íbúafjöldi á New York svæðinu er í heild um 25 milljónir. Flugumferð um Newark er tæplega 70% af umferðinni um JFK og á síðasta ári fóru 34 milljónir farþega um hann.

Newark  verður ellefti áfangastaður Icelandair í Norður Ameríku og 36. staðurinn í leiðakerfinu á þessu ári. “Það að hefja flug á nýrri leið við upphaf vetraráætlunar er til marks um þá áherslu sem við leggjum á að jafna árstíðarsveifluna í rekstrinum og auka starfsemi yfir vetrarmánuðina. Við væntum þess að þetta styrki jafnt tengiflug okkar yfir Norður-Atlantshafið og ferðaþjónustuna hér á landi”, segir Birkir.

Newark er fjórði nýi áfangastaður Icelandair sem kynntur hefur verið nýr á þessu ári, hinir eru Anchorage í Alaska, St Pétursborg í Rússlandi og Zurich í Sviss.

Vöxturinn heldur áfram á næsta ári því flugáætlun félagsins fyrir árið 2014 verður sú stærsta í sögu þess og um 18% umfangsmeiri en á þessu ári. Flug verður hafið til þriggja nýrra áfangastaða, Edmonton, Vancouver og Genfar, og ferðum fjölgað til ýmissa borga í Norður-Ameríku og Evrópu. Gert er ráð fyrir að farþegar Icelandair verði rúmlega 2,6 milljónir á árinu 2014, en eru á þessu ári um 2,3 milljónir. Alls verður 21 Boeing-757 flugvél nýtt til farþegaflugsins næsta sumar, þremur fleiri en á þessu ári