Pingdom Check
03/16/2016 | 12:00 AM

Fyrsta flug Icelandair til Chicago í dag

Í dag hófst reglulegt áætlunarflug Icelandair til Chicago. Flogið er til og frá borginni allt árið um kring. Chicago er fimmtándi áfangastaðurinn í Norður-Ameríku sem Icelandair býður upp á í leiðakerfi sínu og sá sextándi, Montreal í Kanada, bætist við í maí.

Icelandair flaug til Chicago frá 1973 til 1988 og tekur nú upp þráðinn 28 árum síðar. „Með stækkun leiðakerfisins, fjölgun áfangastaða og aukinni tíðni sjáum við tækifæri til að fara inn á þennan stóra markað sem Chicago er“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Bókanir fóru vel af stað eftir að sala hófst og því hefur verið aukið verulega við sætaframboð frá því upphaflega var ákveðið með því að nýta í sumar breiðþotu, Boeing 767, í flugið í stað Boeing 757.

Chicago er þriðja stærsta borg Bandaríkjanna á eftir Los Angeles og New York og mikil miðstöð athafnalífs, menningar og lista. „Chicagosvæðið er rúmlega tíu milljón manna markaður og með beinu flugi stefnum við að því að margfalda ferðamannafjöldann frá svæðinu til Íslands og bjóða auk þess upp á frábæra tengimöguleika til áfangastaða okkar í Evrópu. Að auki er Chicago sögufræg og spennandi borg fyrir Evrópubúa og okkur Íslendinga að heimsækja“, segir Birkir.

Við brottför flugsins á Keflavíkurflugvelli var boðið upp á veitingar og tónlist, og á myndinni klippa Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, Ragnheiður Elín Árnadóttir, atvinnu- og nýsköpunarráðherra og Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair á borða til að marka upphaf flugsins.