Fyrsta flug Icelandair til Þrándheims í Noregi í dag 10.júní 2010 | Icelandair
Pingdom Check
06/10/2010 | 12:00 AM

Fyrsta flug Icelandair til Þrándheims í Noregi í dag 10.júní 2010

Fyrsta flug Icelandair til Þrándheims í Noregi í dag

Icelandair hóf í dag áætlunarflug til Þrándheims í Noregi. Flogið verður til og frá borginni tvisvar í viku til 8. október í haust með viðkomu í Bergen á leiðinni frá Íslandi. Í tilefni dagsins tóku borgarstjóri Þrándheims, Tore O Sandvik, á móti Birki Hólm Guðnasyni, framkvæmdastjóra Icelandair og öðrum farþegum þegar Icelandair þotan lenti í Þrándheimi, en þar var haldin stutt móttökuathöfn.

Icelandair hefur um árabil flogið daglegt áætlunarflug til Osló, en hóf fyrir þremur árum reglulegt flug til Bergen á vesturströnd Noregs. Í sumar verður flogið 10 sinnum í viku til Osló, fjórum sinnum í viku til Bergen og tvisvar í viku til Þrándheims og Stavanger. Bókanir í Þrándheimsflugið eru umfram væntingar og hefur þegar verið bætt við flugi í haust af þeim sökum.

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair sér mörg tækifæri í þessu aukna flugi til Noregs. “Viðskiptahugmyndin á bak við Icelandair er sú að nýta legu landsins á milli Norður-Evrópu og Norður-Ameríku til arðbærrar flugstarfsemi. Þessi samfélög á vesturströnd Noregs, Þrándheimur, Bergen og Stavanger, eru hvert um sig álíka fjölmenn og Ísland, þau hafa efnahagslegan styrk og mjög þróaðan ferðaiðnað, m.a. í tengslum við skemmtiferðaskip. Að auki eru sterk tengsl milli Íslands og þessa svæðis, bæði söguleg og atvinnuleg. Margir Íslendingar eru búsettir á þessum slóðum. Við teljum því að við getum byggt upp hagkvæmt flug á þessa staði og fengið farþega á öllum þremur markaðssvæðum okkar, þ.e. vestanhafs, á Íslandi og í Noregi. Við getum boðið upp á langtum betri tengingar til Kanada og Bandaríkjanna í gegnum Ísland frá þessum slóðum en áður hefur verið boðið upp á og reynslan síðustu ár lofar góðu um framhaldið”, segir Birkir Hólm.

Hópur norskra flug- og ferðaþjónustuaðila, auk fjölmiðlamanna kom með fyrsta fluginu til Íslands.

Þess má til gamans geta að skömmu eftir að eldgosið hófst í Eyjafjallajökli, eða dagana 18. og 19. apríl, flaug Icelandair 7 aukaflug til Þrándheims með farþega frá Íslandi, en þá voru allir aðrir flugvellir í vestanverðri Evrópu lokaðir.

----

Á myndunum sem sem teknar voru á flugvellinum Þrándheimi um hádegið í dag eru

1. Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri og Tore O. Sandvik borgarstjóri á flugvellinum í Þrándheimi.

2. Áhöfnin í fyrsta fluginu til Þrándheims, Ársæll Kjartansson, flugstjóri, Sigurður E. Guðmundsson, flugmaður og flugfreyjurnar Auðný Vilhjálmsdóttir, Ellen Birna Loftsdóttir, Dagný Atladóttir og Beverly Ellen Chase, ásamt Bjarna Birki Harðarsyni, Helga Má Björgvinssyni, Birki Hólm Guðnasyni Guðjóni Arngrímssyni og Jóhanni Benediktssyni frá Icelandair.