Fyrsta flug Icelandair til Washington í dag 17 maí | Icelandair
Pingdom Check
05/17/2011 | 12:00 AM

Fyrsta flug Icelandair til Washington í dag 17 maí

70 flugum bætt við áætlun og flogið til borgarinnar út árið

Icelandair hefur í dag áætlunarflug til Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna. Í dag var ennfremur tilkynnt að flugáætlun félagsins til Washington verður framlengd út árið 2011 og bætt við 70 flugum yfir haust- og vetrarmánuðina. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, verður þátttakandi í fyrsta fluginu og í dagskrá á vegum Icelandair og Washingtonborgar við komuna vestur um haf í kvöld og á morgun.

Upphaflega var áætlað að fljúga til og frá Washington í sumar frá 17. maí til 13. september en í apríl tilkynnti Icelandair um framlengingu flugsins um rúman mánuð og jafnframt var flugum fjölgað úr fjórum á viku í fimm flug á viku í júlí og ágúst í sumar. Nú hefur verið ákveðið að Washingtonflugið verði fjórum sinnum í viku til 8. janúar 2012 og hefjist síðan aftur af krafti þann 27. mars.

"Við sjáum þarna tækifæri til vaxtar yfir vetrarmánuðina og erum að bregðast við sterkari eftirspurn en við gerðum ráð fyrir", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. "Við leggjum nú mikla áhersla á að efla íslensku ferðaþjónustuna yfir vetrarmánuðina og hér erum við að bæta verulega í framboð okkar utan háannatímans og ætlum okkur með þessari viðbót að fjölga ferðamönnum til landsins um nokkur þúsund.  Þetta aukna flug til Washington styrkir einnig flug milli Íslands og Evrópu vegna tengiflugs um Keflavíkurflugvöll og kallar því á aukið framboð á Evrópuleiðum Icelandair."

Alls er 70 flugum til Washington bætt við upphaflegu áætlunina, auk þess sem bætt verður við flugi til Evrópuborga, þannig að í tengslum við þessa aukningu fjölgar flugum um rúmlega 80 í vetur frá sem áætlað var. "Við stefnum að því að byggja þennan áfangastað upp sem heilsársstað. Við þekkjum  vel til  flug- og ferðamannamarkaðarins á Washingtonsvæðinu og ætlum okkur að ná töluverðum fjölda ferðamanna til Íslands þaðan og munum auk þess bjóða upp á góðar tengingar í gegnum Keflavíkurflugvöll milli Washington og margra Evrópuborga. Þá er Washington einn vinsælasti áfangastaður í Bandaríkjunum fyrir íslenska ferðamenn enda höfuðborg landsins og margt þar að sjá og upplifa", segir Birkir.

Icelandair mun fljúga til og frá Dulles flugvellinum sem er alþjóðaflugvöllur Washingtonborgar

Washington er áttunda borgin sem Icelandair flýgur áætlunarflug til í Norður Ameríku. Hinar borgirnar eru New York, Boston, Seattle, Minneapolis og Orlando í Bandaríkjunum, og Toronto og Halifax í Kanada. Í sumar flýgur Icelandair 53 flug vikulega til Norður Ameríku, mun fleiri en önnur flugfélög á Norðurlöndum.