Icelandair breytir allri flugáætlun á morgun 9.maí
Icelandair hefur tilkynnt breytingar á flugi á morgun, sunnudaginn 9. maí, vegna áframhaldandi óvissu um hvort Keflavíkurflugvöllur verður opinn fyrir flugumferð.
Tengistöð millilandaflugsins til Bandaríkjanna og Evrópu verður í Glasgow bæði í fyrramálið og síðdegis á morgun, líkt og síðdegis í dag. Fimm flug eru síðan sett upp á morgun á milli Glasgow og Akureyrar fyrir farþega sem eru annað hvort að koma til Íslands eða fara frá landinu á morgun. Fyrstu brottfarir frá Akureyri í fyrramálið eru klukkan 04.00 og eru rútuferðir í boði frá BSÍ.
"Með þessari breytingu erum við að reyna að tryggja að allir farþegar komist til síns áfangastaðar á morgun, þó svo það taki lengri tíma með millilendingunni í Glasgow. Staðan er óljós, en við viljum ekki taka þá áhættu að flug stöðvist og farþegar sitji fastir. Icelandair tilkynnir farþegum um breytingar með sms sendingum og tilkynningum á vef sínum og til fjölmiðla, en um fjögur þúsund farþegar eiga flug með okkur á morgun", segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Breytingarnar á morgun ná til flugs í fyrramálið frá New York, Boston og Seattle og til Kaupmannahafnar, Osló, Stokkhólms, London, Frankfurt, Parísar og Amsterdam, einnig til síðdegisflugs til Kaupmannahafnar, London og Osló, Boston, New York og Seattle. Þessi flug eru felld niður, en ný flug sett upp í staðin með tilliti til tengingarinnar í Glasgow.
Farþegar eru hvattir til þess að fylgjast með fréttum og upplýsingum um komu og brottfarartíma á www.icelandair.com og vefmiðlum því breytingar geta orðið með skömmum fyrirvara.