Icelandair eykur flug til New York í haust | Icelandair
Pingdom Check
04/02/2012 | 12:00 AM

Icelandair eykur flug til New York í haust

Icelandair hefur ákveðið að auka við flugáætlun sína til og frá New York í haust vegna mikillar eftirspurnar og fjölgar um þrjár ferðir á viku frá 20. september fram í nóvember.

„Við erum markvisst að byggja upp starfsemi og ferðaþjónustu utan háannatímans og grípum tækifæri til vaxtar þegar þau gefast.  Við tilkynntum fyrir stuttu um aukið flug næsta vetur til London og nú er það New York. Eftirspurnin sem við erum að bregðast við er bæði í ferðum til og frá Íslandi, og milli Evrópu og Bandaríkjanna með viðkomu hér á landi, t.d. milli Norðurlandanna og New York“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Icelandair flýgur 14 sinnum í viku til New York yfir háannatíma að sumri en 7 sinnum á viku yfir vetrarmánuðina. Næsta haust bætast þrjú vikuleg flug við og því verður flogið 10 sinnum í viku til New York á tímabilinu 20. september til 5. nóvember. Þannig verða tvö dagleg flug frá Keflavíkurflugvelli til New York síðdegis á mánudögum, fimmtudögum og laugardögum á þessum tíma og 15 mínútur verða á milli brottfara.

Auk New York flýgur Icelandair til Boston, Seattle, Denver, Minneapolis, Washington, Orlando, Toronto og Halifax í Norður Ameríku og 22 áfangastaða í Evrópu.