Icelandair eykur framboð næsta vetur og hefur flug til London Gatwick
Icelandair mun auka við flugáætlun sína til London á næsta vetri og mun til viðbótar við flug félagsins til Heathrow flugvallar nú hefja flug inn á Gatwick flugvöll. Flugið til Gatwick hefst 18. október og stendur til 7. apríl á næsta ári. Flogið verður tvisvar í viku, á fimmtudagsmorgnum og sunnudagskvöldum.
Icelandair flýgur tvisvar á dag, þ.e. 14 sinnum á viku, til London Heathrow og mun halda því áfram. "Heathrow er okkar aðalflugvöllur í London og verður það áfram. Vinsældir hans eru hinsvegar miklar í alþjóðaflugi og ekki möguleiki að fá fleiri lendingarleyfi þar. Til þess að bregðast við aukinni eftirspurn ákváðum við að hefja flug á Gatwick", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. "Gatwick mun einnig gefa okkur kost á enn frekari vexti í London, sem eru ekki til staðar á Heathrow, auk þess sem mörg samstarfsfélaga okkar í tengiflugi innan Evrópu og á fjarmörkuðum í Asíu eru öflug á flugvellinum, svo sem British Airways."
Tímasetning flugsins á fimmtudögum og sunnudögum hentar vel fyrir helgarferðir, bæði fyrir Breta sem hyggja á Íslandsferð og fyrir Íslendinga á leið til Bretlands.
"Eins og fram hefur komið í fréttum erum við að sjá mikinn vöxt í komu ferðamanna núna í vetur, og við ætlum okkur að bæta enn í næsta vetur. Því er athyglisvert að við verðum með meira flug til og frá London yfir vetrarmánuðina en yfir sumarið", segir Birkir.
Flugáætlun Icelandair fyrir árið 2012 er sú stærsta í sögu þess og um 14% umfangsmeiri en á síðasta ári. Nýr heilsárs áfangastaður, Denver í Colorado, bætist við og ferðum er fjölgað til ýmissa borga í Bandaríkjunum og Evrópu. Gert er ráð fyrir að farþegar félagsins verði um 2 milljónir á árinu 2012.
Auking vetraráætlunar er hlutfallslega mun meiri en aukning sumaráætlunar, og sem dæmi má nefna að næsta nóvember eru áætluð 107 flug í viku frá Keflavík en þau voru aðeins 70 árið 2009. Það er rúmlega 50% vöxtur á 3 árum.
Auk fjögurra ferða til Denver og tveggja til London Gatwick verður flogið allt árið á Munchen næsta vetur í fyrsta sinn, tvisvar í viku. Einnig er flugtímabil til og frá Bergen, Þrándheimi og Stavanger lengt verulega. Það var til október í fyrra en verður a.m.k. fram í janúar nú í vetur. Flogið er fjórum sinnum í viku og er stefnt að heilsársflugi á þessa þrjá Noregsstaði. Alls eru áfangastaðirnir 32 á þessu ári.
Leiðakerfi Icelandair er burðarás í flugsamgöngum til og frá Íslandi og helsta undirstaða ferðaþjónustunnar. Það byggir á staðsetningu landsins mitt á milli Norður-Evrópu og Norður-Ameríku og með því er Icelandair unnt að þjóna þremur mörkuðum; heimamarkaðinum á Íslandi, ferðamannamarkaðinum til Íslands og alþjóðlega markaðinum milli Evrópu og Norður-Ameríku. "Leiðakerfið gefur okkur tækifæri til sveigjanleika og m.a. til þess að auka nú framboð yfir vetrarmánuðina og fjölga ferðamönnum, langt umfram það sem gerist í þessum heimshluta", segir Birkir.