Icelandair felur ÚTÓN framkvæmd Iceland Airwaves hátíðarinnar | Icelandair
Pingdom Check
03/25/2010 | 12:00 AM

Icelandair felur ÚTÓN framkvæmd Iceland Airwaves hátíðarinnar

Icelandair felur ÚTÓN framkvæmd Iceland Airwaves hátíðarinnar.


Icelandair og Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, ÚTÓN, undirrituðu í dag samstarfssamning um rekstur tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves til næstu fimm ára. ÚTÓN hefur samhliða þessu gert samning um að taka við allri starfsemi sem snýr að rekstri hátíðarinnar af fyrri rekstraraðila, Hr. Örlygi.  Jafnframt hefur Reykjavíkurborg lýst yfir vilja til að vera áfram helsti styrktaraðili hátíðarinnar. Um leið og Icelandair býður nýjan rekstraraðila velkominn til starfa þakkar félagið Hr. Örlygi og Þorsteini Stephensen, framkvæmdastjóra þess, fyrir samstarfið.

Iceland Airwaves hefur sem kunnugt er unnið sér sess á undanförnum áratug sem stærsta og mikilvægasta tónlistarhátíð landsins fyrir framsækna tónlist. Hún hefur verið haldin árlega í október frá árinu 1999 og laðar að sér yfir 1800 tónlistaráhugamenn erlendis frá og þar af mikinn fjölda fjölmiðafólks.
Tilgangur hátíðarinnar er að fjölga ferðamönnum til Íslands á haustin, utan hefðbundins ferðatíma, stuðla að menningarlegri fjölbreytni og efla íslenska tónlist, ásamt því að koma íslenskum tónlistarmönnum á framfæri erlendis og í erlendum fjölmiðlum.


Icelandair er stofnandi og eigandi Iceland Airwaves hátíðarinnar, en ÚTÓN mun samkvæmt samningnum annast allan rekstur hennar. Reykjavíkurborg og Icelandair verða áfram aðalstyrktaraðilar hátíðarinnar.
“Með þessum samningi er Icelandair að staðfesta þá sýn félagsins að ný íslensk tónlist sé einhver besta landkynning sem völ er á. Tónlistin fer yfir landamæri og nær með sínum hætti til ólíkra menningarsvæða og vekur athygli á landi og þjóð.  Icelandair styrkir nú yngstu tónlistarmennina með því að vera bakhjarl Músíktilrauna, við stöndum á bak við Iceland Airwaves og auðveldum tónlistarmönnum síðan að koma fram erlendis með verkefninu Reykjavík Loftbrú, sem þúsundir hafa nýtt sér til að halda tónleika víðsvegar um heim á undanförnum árum”, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Svanhildur Konráðsdóttir, menningar- og ferðamálastjóri Reykjavíkur kveðst fagna því að nú liggi fyrir samkomulag við ÚTÓN um framkvæmd hátíðarinnar. ,,Iceland Airwaves hátíðin hefur fyrir löngu sannað menningarlegt gildi sitt auk þess sem hún er afar mikilvægur farvegur  fyrir alþjóðlega kynningu á Reykjavík  sem spennandi og kraftmikilli tónlistarborg. Reykjavíkurborg  hefur um árabil stutt dyggilega við bakið á hátíðinni enda hafa rannsóknir á efnahagslegum áhrifum Iceland Airwaves sýnt að hátíðin skilar þeim framlögum margfalt til baka. Næstu skref verða að útfæra samstarfssamning um hátíðina 2010.”


“ÚTÓN er viðskipta- og markaðsskrifstofa fyrir íslenska tónlistargeirann í heild sinni. Iceland Airwaves er einn besti kynningarvettvangur sem íslensk tónlist á og því fer rekstur hátíðarinnar og starf skrifstofunnar  vel saman. ÚTÓN tekur við hátíðinni í góðu samráði við fyrrverandi rekstraraðila og leggur áherslu á gott samstarf við tónlistargeirann á Íslandi með það að markmiði að Iceland Airwaves eflist sem einn af virtustu tónlistarviðburðum sinnar tegundar á alþjóðavettvangi. “ segir Anna Hildur Hildibrandsdóttir, framkvæmdastjóri Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar.