Icelandair flýgur til Hamborgar næsta sumar | Icelandair
Pingdom Check
08/18/2010 | 12:00 AM

Icelandair flýgur til Hamborgar næsta sumar

Icelandair hefur ákveðið að hefja áætlunarflug til Hamborgar í Þýskalandi næsta sumar. Flogið verður tvisvar í viku frá 3. júní til 9. september á þriðjudögum og föstudögum. Hamborgarfluginu er ætlað að styrkja leiðakerfi félagsins og ferðamannamarkaðinn í Þýskalandi en Icelandair flýgur sem kunnugt er til Frankfurt allt árið og til Munchen, Berlínar og Dusseldorf yfir sumarið.

Icelandair tilkynnti nýlega fjölgun fluga til New York, Boston og Parísar á næsta sumri, en þá verður flogið tvisvar daglega til þessara borga. Auk þess tilkynnti Icelandair flug til Gautaborgar og Billund sumarið 2011. "Við munum stækka leiðakerfi okkar á næsta sumri, auk tíðni og bæta við áfangastöðum", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. "Hamborgarflugið mun styrkja okkur á þýska ferðamannamarkaðinum og jafnframt auka valkosti okkar í fluginu milli Norður-Ameríku og Evrópu með góðum tengingum á Keflavíkurflugvelli. Auk þess er Hamborg skemmtileg borg fyrir Íslendinga að heimsækja og mikil viðskiptamiðstöð", segir Birkir.

Icelandair mun fljúga samtals 18 sinnum á viku milli Íslands og þessara fimm áfangastaða í Þýskalandi á næsta sumri.