Icelandair flýgur tvisvar daglega til New York, Boston og París sumarið 2011 | Icelandair
Pingdom Check
08/03/2010 | 12:00 AM

Icelandair flýgur tvisvar daglega til New York, Boston og París sumarið 2011

Icelandair hefur ákveðið að fjölga ferðum til og frá New York og Boston í Bandaríkjunum og París í Frakklandi og mun á næsta sumri fljúga tvisvar á dag til þessara borga. Með þessu verður Icelandair með mesta tíðni allra flugfélaga sem fljúga milli New York og Norðurlandanna. Sem fyrr er Icelandair eina flugfélagið sem flýgur milli Norðurlandanna og Boston og einungis eitt af sex flugfélögum í heiminum með meira en daglega tíðni yfir sumarið milli Evrópu og Boston. 

Aukningin verður á tímabilinu 1. júní til 12. september og þýðir að morgunflug til New York og Boston verður frá Keflavík daglega klukkan 10:30 auk síðdegisflugsins sem er allt árið. Morgunflugið hefur notið mikilla vinsælda og er mjög hentugt fyrir áframhaldandi tengiflug innan Bandaríkjanna.

"Við sjáum tækifæri framundan til þess að þétta áætlun Icelandair á okkar lykilmörkuðum til þess að styrkja starfsemi félagsins og ferðaþjónustuna. Markaðshlutdeild okkar milli Evrópu og Boston er orðin mjög há og hækkar enn með þessu. New York markaðurinn er sá stærsti í heimi þannig að hlutdeild Icelandair þar er mun minni, en möguleikar t.d. í ferðum til Íslands frá því svæði eru miklir", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. 

Icelandair byggir leiðakerfi sitt á staðsetningu landsins mitt á milli Norður-Evrópu og Norður-Ameríku. Með leiðakerfinu er Icelandair unnt að þjóna þremur mörkuðum; heimamarkaðinum á Íslandi, ferðamannamarkaðinum til Íslands og alþjóðlegum flugfarþegum á leið milli Evrópu og Norður-Ameríku með viðkomu á Keflavíkurflugvelli. Sú flugtíðni sem þetta leiðarkerfi Icelandair tryggir – þ.e. um 160-200 flug í viku til og frá öllum helstu borgum austan hafs og vestan er grundvöllur ferðaþjónustunnar á Íslandi. "Flugið skapar fjölmörg atvinnutækifæri um allt land og mikilvægi þess að halda uppi góðum samgöngum milli Íslands og annarra landa verður seint ofmetið. Við hjá Icelandair leikum þar lykilhlutverk og ætlum að gera áfram”, segir Birkir.