Pingdom Check
01/15/2015 | 12:00 AM

Icelandair flytur í nýja flugstöðvarbyggingu á London Heathrow

Icelandair mun 25. mars flytja þjónustu sína á Heathrow flugvellinum í London, frá flugstöðvarbyggingu 1 (Terminal 1)  yfir í hina nýbyggðu flugstöð sem kennd er við Bretadrottningu, Queens Terminal 2. Byggingin var tekin í notkun í júlí í fyrra, og í vetur hafa 25 flugfélög verið að flytja sig um set og hefja starfsemi í nýju byggingunni. Þar á meðal eru mörg af þekktustu flugfélögum heims, eins og SAS, Lufthansa, Singapore Airlines, Turkish Airline og United Airlines.

Nýbyggingin Terminal 2 er mjög svipuð og Terminal 5, þar sem British Airways hefur aðsetur og margir kannast við. Í Terminal 2 er hátt til lofts og vítt til veggja og tugir verslana, veitingastaða og önnur aðstaða fyrir komu- og brottfararfarþega. „Það er ánægju- og tilhlökkunarefni að geta boðið viðskiptavinum okkar þessa frábæru nýju aðstöðu á Heathrow“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Icelandair flýgur tvisvar á dag, allt árið, til London Heathrow. Fyrsta flugið sem nýtir Queens Terminal 2 verður að morgni 25. mars í vor.