Icelandair gengur í samtökin A4E, Airlines for Europe | Icelandair
Pingdom Check
10/26/2016 | 12:00 AM

Icelandair gengur í samtökin A4E, Airlines for Europe

Icelandair og A4E, Airlines for Europe, tilkynntu í dag að Icelandair er þrettánda flugfélagið til þess að ganga í hin nýstofnuðu, en um leið stærstu samtök evrópskra flugfélaga.

Samtökin voru stofnuð í janúar á þessu ári, eru með höfuðstöðvar í Brussel og hafa að markmiði að vinna að hagsmunum greinarinnar á evrópskum vettvangi. Flugfélögin sem nú þegar hafa gengið til liðs við A4E eru Aegean, airBaltic, Air France KLM, easyJet, Finnair, Icelandair, International Airlines Group (IAG), Jet2.com, Lufthansa Group, Norwegian, Ryanair, TAP Portugal and Volotea, og stefnt er að því að fjölga aðildarfélögum. Með þessum flugfélögum fljúga um 550 milljónir farþega árlega í um 2.700 flugvélum, eða um 70% af farþegaflugi álfunnar. Heildarvelta þessara flugfélaga er yfir 100 milljarðar evra á ári.

“Við hlökkum til að vinna með A4E að helstu hagsmunamálum evrópskra flugfélaga og evrópskra flugfarþega, svo sem að draga úr kostnaði við evrópska flugvelli. Helstu stefnumál A4E hafa áhrif á daglegan rekstur okkar hjá Icelandair og við viljum að rödd okkar heyrist í Evrópu”, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

“A4E býður nýja þátttakendur velkomna til starfa, og þar sem helstu stefnumál okkar þurfa meiri athygli í Brussel og einstökum löndum Evrópu, sjá sífellt fleiri forsvarsmenn flugfélaga ástæðu til þess að sameinast í einum sterkum samtökum í Brussel. Flugfélög Evrópu bjóða íbúum og fyrirtækjum álfunnar upp á frábæra ferðamöguleika og starfsemi þeirra stuðlar að hagvexti og fjölgun starfa”, segir Thomas Reyneart, forstjóri A4E.

Nánari upplýsingar um samtökin er að finna á heimasíðu Airlines for Europe.