Icelandair gerir ráð fyrir að flug á morgun verði samkvæmt áætlun. | Icelandair
Pingdom Check
05/11/2014 | 12:00 AM

Icelandair gerir ráð fyrir að flug á morgun verði samkvæmt áætlun.

Icelandair gerir ráð fyrir að flugáætlun félagsins á morgun, mánudag 12. maí, verði með eðlilegum hætti. Vegna verkfallsaðgerða flugmanna félagsins hefur verið mikil röskun á flugi í dag og undanfarna daga. Þannig hefur alls verið fellt niður 51 farþegaflug frá því verkfallsaðgerðir hófust á föstudagsmorgun og um 7 þúsund farþegar, mest erlendir ferðamenn, hafa þurft að breyta ferðum sínum vegna þessa. Þá varð að fella niður eitt fraktflug með 37 tonnum af ferskum fiski á leið til Bretlands á föstudagskvöld.

Miklar seinkanir hafa einnig verið í flugi félagsins undanfarna daga vegna aðgerðanna. Starfsfólk í þjónustuveri, á Keflavíkurflugvelli og á flugvöllum erlendis hefur unnið mikið starf við að þjóna þúsundum strandaðra viðskiptavina og gera nauðsynlegar breytingar á ferðatilhögun þeirra, koma þeim fyrir á hótelum og aðstoða þá við áframhaldandi flug. Gera hefur þurft miklar breytingar á áætlun félagsins til þess að koma til móts við þarfir farþega við þessar erfiðu aðstæður.