Icelandair gerir samstarfssamning við easyJet | Icelandair
Pingdom Check
09/08/2020 | 11:00 AM

Icelandair gerir samstarfssamning við easyJet

Við lifum á óvissutímum og flugsamgöngur hafa tekið miklum breytingum. En við hjá Icelandair lítum fram á veginn og erum viðbúin því að mæta aukinni eftirspurn eftir spennandi áfangastöðum, eftir því sem ferðahugur landsmanna færist í aukana. Því er okkur mikil ánægja að tilkynna um samstarf við flugfélagið easyJet, en Icelandair hefur nú gerist aðili að stafrænu bókunarþjónustunni Worldwide by easyJet.

Ferðastu lengra

Gert er ráð fyrir því að þjónustan komist í gagnið á helstu flugvöllum Evrópu á næstu vikum. Þá munu farþegar hafa kost á að fljúga með Icelandair til áfangastaða innan leiðakerfis easyJet, og þaðan áfram til annarra áfangastaða sem easyJet flýgur til.

Til dæmis gæti farþegi flogið frá Keflavík til Amsterdam með Icelandair, og síðan áfram til Rómar með easyJet. Eða þá frá Edinborg til Keflavíkur með easyJet og þaðan áfram til Norður-Ameríku með Icelandair. Möguleikarnir eru óteljandi!

Bókunarþjónustan Worldwide by easyJet hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum og tengir nú saman fleiri en 5 þúsund flugleiðir víða um heim með öflugu neti 17 samstarfsflugfélaga.

Trygging fyrir röskun á flugi

Það felst viss hugarró í því að bóka flug gegnum Worldwide by easyJet bókunarþjónstuna, vegna þess að farþegar eru tryggðir fyrir röskun á flugi. Ef fluginu þínu seinkar, þú missir af tengiflugi eða hvers kyns önnur röskun verður á ferðaáætlun þinni, sér tryggingin (á vegum íslenska fyrirtækisins Dohop: Dohop Connect Protection) fyrir því að þú komist á lokaáfangastað með eins litlum töfum og mögulegt er.

Við hlökkum til að sjá þig um borð og vonum að þú njótir góðs af þeim nýju möguleikum sem bókunarþjónustan Worldwide by easyJet býður upp á.