Icelandair Group bætir við eitt þúsund starfsmönnum í sumar | Icelandair
Pingdom Check
05/30/2012 | 12:00 AM

Icelandair Group bætir við eitt þúsund starfsmönnum í sumar

 

Icelandair Group bætir við rúmlega eitt þúsund starfsmönnum í sumar

 

Alls eru rúmlega eitt þúsund starfsmenn að koma til starfa hjá fyrirtækjum innan Icelandair Group samstæðunnar um þessar mundir,  meiri fjöldi en nokkru sinni fyrr á vormánuðum. Í heild verða starfandi innan raða Icelandair Group um 3.300 starfsmenn yfir háannatímann. Langflestir, eða um 3.100 munu starfa á Íslandi, en um 200 eru hjá starfsstöðvum félagsins erlendis.  Mjög stór hluti þeirra starfsmanna sem hefja störf nú á vormánuðum  eru nemendur í skólum landsins og allstór hópur hefur unnið hjá félaginu áður. Stöðugildi á ársgrundvelli eru um 2500.

 

“Starfsemi innan félagsins hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum þremur árum og er nú umfangsmeiri en áður í 75 ára sögu félagsins. Sú atvinnugrein sem við erum í, flugið og ferðaþjónustan, er mjög atvinnuskapandi. Starfsmennirnir munu hafa mikið að gera í sumar. Margir hafa starfað hjá okkur áður yfir háannatímann og koma með þekkingu og reynslu með sér. Aðrir eru að byrja. Þeir fá mikla þjálfun og fræðslu áður en þeir hefja störf og síðan starfsreynslu sem er mikilvæg fyrir framtíðaruppbyggingu greinarinnar”, segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group. Innan Icelandair Group eru Icelandair, IGS, Icelandair Hotels, Icelandair Cargo, Flugfélag Íslands, Vita, Iceland Travel, Fjárvakur og Loftleiðir.

 

Af heildarfjölda starfsmanna Icelandair Group starfa flestir hjá Icelandair, alls um 1600 í sumar og eru fjölmennustu stéttirnar flugfreyjur og- þjónar, flugvirkjar og flugmenn.  Í vor bætast við um  350 starfsmenn hjá Icelandair.

 

Hjá flugþjónustunni á Keflavíkurflugvelli, IGS, starfa í sumar 620 starfsmenn og eru um 240 þeirra sumarstarfsmenn. Hjá tækniþjónustu félagsins á Keflavíkurflugvelli, sem heyrir undir Icelandair, starfa í sumar um 350 manns. Einnig eru starfandi á Keflavíkurflugvelli starfsmenn í stjórnstöð Icelandair, auk annarra fyrirtækja samstæðunnar, s.s. Icelandair Cargo.  Þannig starfa tæplega eitt þúsund starfsmenn Icelandair Group á Keflavíkurflugvelli í sumar.

 

Starfsmannafjöldi í hótelrekstri samstæðunnar tvöfaldast næstum yfir sumarið. Nýlega var opnað nýtt miðbæjarhótel í Reykjavík, Icelandair Hotel Reykjavik Marina, og Edduhótelin eru að opna allt í kringum landið um þessar mundir. Á heilsárshótelum í Reykjavík, Akureyri og á Héraði eru um 370 starfsmenn allt árið og þar fjölgar um 150 nú á vormánuðum. Um 200 manns eru síðan að koma til starfa á Edduhótelunum, þannig að heildarstarfsmannafjöldi  hótelanna í sumar verður rúmlega 700 manns

 

Hjá Flugfélagi Íslands starfa tæplega 240 manns og fjölgar um 40 nú í vor. Þetta er meiri fjöldi en á undanförnum árum og skýrist það einkum af miklum vexti í Grænlandsflugi félagsins.

 

Hjá Icelandair Cargo, Fjárvakri, Iceland Travel, Vita og Loftleiðum starfa samtals 200 manns og er tiltölulega lítil árstíðabundin aukning í starfsemi þessara félaga þó þar fjölgi samtals um nokkra tugi.

 

Þessi aukna starfsemi Icelandair Group hefur í för með sér aukin umsvif í greininni um allt land. Í niðurstöðum rannsóknarfyrirtækisins Oxford Economics á efnahagslegu mikilvægi flugsamgangna á Íslandi frá síðasta vetri kom fram að árleg verðmætasköpun hvers starfsmanns í flugþjónustu á Íslandi er 16 milljónir króna. Það er u.þ.b. 1,7 sinnum meira en meðaltalið á Íslandi, sem er 9,2 milljónir króna. Þá kom fram í sömu könnun, sem kynnt var í vetur, að flugreksturinn hefur mikil áhrif á efnahagslífið í landinu og stendur undir tæplega 13% landsframleiðslu, ef reiknað er með framlagi greinarinnar til ferðaþjónustunnar  og við hana starfar 12,3% af heildarvinnuafli landsins.