Icelandair hefur áætlunarflug til Anchorage, St. Pétursborgar og Zurich
Icelandair hefur áætlunarflug til þriggja nýrra áfangastaða 2013. Það eru borgirnar Anchorage í Alaska, St. Pétursborg í Rússlandi og Zurich í Sviss. Unnið er að frágangi heildaráætlunar Icelandair fyrir árið 2013 og verður hún kynnt á næstunni.
Anchorage í Alaska
Flugið til Anchorage hefst 15. maí og flogið verður tvisvar í viku til 15. september.
“Vegna legu Íslands og hins öfluga leiðakerfis okkar um Keflavíkurflugvöll getum við boðið upp á flug milli Alaska og Evrópuborga sem er hagkvæmt og þægilegt, og það er undirstaða þessa flugs. En auk þess er opnuð leið inn á nýjan markað fyrir íslenska ferðaþjónustu og spennandi áfangastað í beinu flugi fyrir íslenska ferðamenn,” segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.
Alaska er stærsta fylki Bandaríkjanna að flatarmáli. Íbúar eru rúmlega 700 þúsund og þar af 400 þúsund í Anchorage og nágrenni. Alaska býr yfir miklum náttúruauðlindum og ferðaþjónusta sem byggir á stórbrotinni óspilltri náttúru er ein helsta atvinnugreinin.
Flug til Anchorage frá Íslandi tekur rúmlega 7 klukkustundir, sem er lítið eitt styttra en t.d. flug til Seattle og Denver. Flugleiðin liggur í norðurátt frá Íslandi, yfir pólsvæðið.
“Töluverður straumur flugfarþega er á milli Evrópu og Alaska, bæði vegna öflugs atvinnulífs, sem m.a. byggir á fiskveiðum og olíu og gasvinnslu, og vegna ferðaþjónustu, en Alaska er mikil útivistarparadís. Þessir farþegar þurfa að millilenda í Bandaríkjunum á leið sinni. Með því að millilenda á Íslandi í staðinn geta þeir stytt ferðatíma sinn um þrjár klukkustundir eða meira”, segir Birkir.
En þó að gert sé ráð fyrir því að stærstur hluti farþeganna á þessari nýju flugleið muni aðeins hafa stutta viðdvöl á Keflavíkurflugvelli, þá felast einnig í henni miklir möguleikar fyrir ferðaþjónustuna. Alaska og Ísland höfða um margt til sömu markhópa og flugið opnar möguleika til margháttaðs samstarfs og samvinnu varðandi markaðssetningu, sölustarf og þróun. “Margar helstu ferðaskrifstofur sem Icelandair starfar með og selja Íslandsferðir selja einnig Alaskaferðir og taka þessu flugi fagnandi”, segir Birkir.
St. Pétursborg í Rússlandi
Flugið til St. Pétursborgar hefst 1. júní og flogið verður tvisvar í viku til 17. september. Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á beint áætlunarflug á milli Íslands og Rússlands og því um tímamót í samgöngusögunni að ræða.
“Við erum að opna okkur og íslenskri ferðaþjónustu nýja leið inn á Rússlandsmarkað, sem er afar stór og vaxandi ferðamannamarkaður og um leið að bjóða Íslendingum nýjan og spennandi áfangastað í beinu flugi”, segir Birkir. Rússneskum ferðamönnum hefur fjölgað jafnt og þétt hér á landi sem í öðrum Evrópulöndum á undanförnum árum og það skapar grundvöll fyrir beint áætlunarflug.
Þá er St. Pétursborg mikil ferðamannaborg sem einkennist af sögufrægum gömlum byggingum, mikilli listastarfsemi, fjölskrúðugu hótel- og veitingastaðaframboði og lifandi mannlífi. Íbúar eru um 5 milljónir. Borgin stendur við botn Finnlandsflóa inn af Eystrasalti og áin Neva er áberandi í borgarlandslaginu.
Með fluginu nýtir Icelandair einnig þá möguleika sem felast í leiðakerfi félagsins og tengiflugi milli Rússlands og Bandaríkjanna. Flug frá St. Pétursborg til Íslands tekur tæplega 4 klukkustundir og tímamunur milli borgarnnar og Íslands er sömuleiðis 4 klukkustundir. Því er unnt að fljúga kl. 09.40 að morgni frá St. Pétursborg og lenda á Keflavíkurflugvelli kl. 09:40 að íslenskum tíma. Þannig geta farþegar auðveldlega náð beinu áframhaldandi morgunflugi Icelandair til New York og Boston með aðeins um einnar klukkustundar tengitíma í Leifsstöð.
Zurich í Sviss
Flugið til Zurich verður tvisvar í viku frá 1. júní til 14. september.
“Flugið til og frá Zurich mun styrkja okkur á ferðamannamarkaðinum í Mið-Evrópu og jafnframt auka valkosti okkar í fluginu milli Norður-Ameríku og Evrópu. Auk þess er Zurich skemmtileg borg fyrir Íslendinga að heimsækja og frábær upphafsstaður fyrir Evrópuferðir", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.