Icelandair hefur áætlunarflug til Washington DC í vor | Icelandair
Pingdom Check
10/06/2010 | 12:00 AM

Icelandair hefur áætlunarflug til Washington DC í vor

Icelandair hefur ákveðið að hefja áætlunarflug til Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna í maí á næsta ári. Flogið verður fjórum sinnum í viku yfir sumarmánuðina, frá 17. maí til 13. september.

Washington er fimmti nýi áfangastaðurinn sem Icelandair bætir við áætlun sína á næsta ári, en áður hefur félagið kynnt Alicante, Hamborg, Gautaborg og Billund til sögunnar. Alls verða áfangastaðir Icelandair 31 talsins á árinu 2011 og hafa aldrei verið fleiri.

"Icelandair þekkir mjög vel til flug- og ferðamannamarkaðarins á Washingtonsvæðinu og við sjáum þar ákveðin tækifæri um þessar mundir", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. "Við ætlum okkur að ná töluverðan fjölda ferðamanna til Íslands frá þessu svæði og munum auk þess bjóða upp á góðar tengingar í gegnum Keflavíkurflugvöll milli Washington og margra Evrópuborga. Þá er Washington einn vinsælasti áfangastaður í Bandaríkjunum fyrir ferðamenn enda höfuðborg landsins og margt þar að sjá og upplifa".

Icelandair mun fljúga til og frá Dulles flugvellinum sem er alþjóðaflugvöllur Washingtonborgar

Washington er áttunda borgin sem Icelandair flýgur áætlunarflug til í Norður Ameríku. Hinar borgirnar eru New York, Boston, Seattle, Minneapolis og Orlando í Bandaríkjunum, og Toronto og Halifax í Kanada. Á næsta sumri mun Icelandair fljúga 52 flug vikulega til Norður Ameríku, mun fleiri en önnur flugfélög á Norðurlöndum.

Sala í Washingtonflugið hefst 07.oktober.