Icelandair hefur flug til Aberdeen í Skotlandi | Icelandair
Pingdom Check
08/17/2015 | 12:00 AM

Icelandair hefur flug til Aberdeen í Skotlandi

Icelandair hefur ákveðið að hefja áætlunarflug til Aberdeen í Skotlandi í mars á næsta ári. Flogið verður fjórum sinnum í viku, á mánudögum, miðvikudögum, föstudögum og laugardögum.

Aberdeen er á norðausturströnd Skotlands, þriðja stærsta borg landsins á eftir Glasgow og Edinborg, með um 300 þúsund íbúa. Hún er helsta miðstöð olíu- og gasiðnaðarins á Norðursjónum, og forn mennta- og menningarborg. Fjölmargir frábærir golfvellir eru í og við borgina. Hún er sjötti áfangastaðurinn í Bretlandi sem Icelandair þjónustar.

Flugfélag Íslands mun annast flugið fyrir Icelandair á Bombardier Q400 flugvél sem tekur 72 farþega. Flogið verður til og frá Keflavíkurflugvelli og með samskonar tengimöguleika fyrir farþega yfir Norður-Atlantshafið og í öðru flugi í leiðakerfi Icelandair á morgnana og síðdegis. Flugið til Aberdeen tekur 2:50 klukkustundir.

„Þetta flug er liður í því að þétta og styrkja leiðakerfi Icelandair. Við sjáum ákveðin tækifæri í því að nýta smærri flugvél eins og Q400 til að fara inn á Aberdeen markaðinn, tengja hann í leiðakerfið og byggja hann upp til framtíðar“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Undirbúningur fyrir sölu- og markaðsstarf hefur verið unnin í samstarfi við alþjóðaflugvöllinn í Aberdeen og ferðamálaráð. "Það eru frábærar fréttir fyrir ferðaþjónustuna í Skotlandi að Icelandair hefur bætt þessari flugleið í leiðakerfi sitt“, segir Mike Cantlay, stjórnarformaður Visit Scotland. „Stefna okkar er að auka beinar flugsamgöngur með því að vinna með alþjóðaflugfélögum og við vonumst til þess að þetta flug fjölgi gestum, ekki bara frá Íslandi, heldur frá helstu mörkuðum okkar í Norður-Ameríku“.

Aberdeen er 26 áfangastaður Icelandair í Evrópu, en auk þess flýgur félagið til 15 áfangastaða í Norður-Ameríku.