Icelandair hefur rekstur flughermis fyrir Boeing 757 þotur á Íslandi á næsta ári | Icelandair
Pingdom Check
08/13/2013 | 12:00 AM

Icelandair hefur rekstur flughermis fyrir Boeing 757 þotur á Íslandi á næsta ári

Samningar hafa verið undirritaðir milli Icelandair og bandaríska fyrirtækisins Opinicus um rekstur flughermis fyrir Boeing 757 þotur á Íslandi. Gert er ráð fyrir að reksturinn hefjist á síðasta ársfjórðungi næsta árs, 2014.

Flughermar eru notaðir til þjálfunar nýrra flugmanna sem og reglubundinnar þjálfunar starfandi flugmanna sem þurfa að fara í endurþjálfun á 6 mánaða fresti. Þessi þjálfun Icelandair hefur ávallt farið fram erlendis þar sem enginn flughermir hefur verið á Íslandi til þessa. Hún fer nú fram í Kaupmannahöfn.

„Hinn  mikli vöxtur sem verið hefur í starfseminni að undanförnu með fjölgun flugvéla og flugmanna gerir það að verkum að þessi samningur eykur hagkvæmni og sparnað í okkar rekstri. Jafnframt er um að ræða nýjasta og fullkomnasta tækjabúnað sem völ er á sem bætir þjálfun áhafna og styrkir hana til framtíðar. Það er einnig ánægjulegt fyrir Icelandair að fá þjálfunina inn í landið, það treystir undirstöður atvinnugreinarinnar og eykur almenna þekkingu og reynslu hér á landi“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Flughermirinn er af gerðinni B757 “Level D”. Hann er nákvæm eftirlíking af  stjórnklefa Boeing 757 flugvélar eins og Icelandair notar í sínum flugrekstri.  Flughermirinn líkir eftir flugeiginleikum Boeing 757 flugvéla og unnt er að kalla fram margháttaðar bilanir og óvæntar aðstæður og þjálfa viðbrögð flugmanna, sem og þjálfa flug við breytileg veðurskilyrði til að reyna á þjálfun þeirra.  Flughermirinn er með mjög fullkomnum myndvörpum sem líkja eftir útsýni úr flugstjórnarklefa og á tjökkum sem hreyfa hann og skapa þá tilfinningu hjá flugmönnum að þeir séu að fljúga við raunverulegar aðstæður.  Flughermir af þessari gerð hreyfist á tjökkum sem eru rafdrifnir í stað vökvadrifinna tjakka sem eldri flughermar hreyfast á, en slíkir flughermar nota mun minni orku en þeir eldri og eru því umhverfisvænni.