Pingdom Check
03/10/2017 | 12:00 AM

Icelandair hlýtur "Gullpálmann" í Berlín

Icelandair hlaut í gær hin eftirsóttu verðlaun þýsku ferðaþjónustunnar „Gullpálmann“ fyrir árið 2016. Verðlaunin, sem eru stundum kölluð óskarsverðlaun þýskrar ferðaþjónustu hafa verið veitt síðustu 20 árin á stærstu ferðakaupstefnu veraldar, ITB sem nú stendur yfir í Berlín. Þau eru veitt í 6 mismunandi flokkum, m.a. ferðaskrifstofum og áfangastöðum sem dómnefndin telur að hafi skarað fram úr á árinu. Icelandair er eina flugfélagið sem verðlaunað var að þessu sinni. Verðlaunin hlýtur Icelandair sem „frumlegasta og hugmyndaríkasta flugfélag ársins“ í Evrópu.

Í niðurstöðu dómnefndar segir að Icelandair hafi sýnt skemmtilega hugkvæmni og aðdáunarvert frumkvæði með því að virkja starfsfólk flugfélagsins til að gera svokölluðum „stop-over-farþegum“, sem gera stuttan stans á Íslandi á leið sinni milli Evrópu og Norður-Ameríku, Íslandsdvölina eftirminnilega. Það hafi verið einróma álit þeirra sem nutu þessarar svokölluðu „Stop-over-buddy“-þjónustu, þar sem starfsmenn kynntu farþegum flugfélagsins „sitt“ Ísland, að þetta hafi verið sannkallað ævintýri fyrir hina erlendu gesti.

Ein af forsendum þess að Icelandair hlýtur umrædda viðurkenningu er einnig sögð hafa verið sú að dagblaðið Süddeutsche Zeitung, sem er einn virtasti fjölmiðill Þýskalands, hafi séð ástæðu til að gera umræddu „buddy“-verkefni flugfélagsins ítarleg skil. Í tengslum við verðlaunaafhendinguna sem fram fór í glæsilegu samkomuhúsi Bertelsmann-stofnunarinnar við hina sögufrægu breiðgötu  „Unter den Linden“ í Berlín í gærkvöldi, að viðstöddum fjölda boðsgesta úr opinberu lífi höfuðborgarinnar, hlýtur flugfélagið einnig veglega kynningu í nýjasta hefti tímaristins GEO Saison, sem er eitt víðlesnasta ferðamálatímarit Þýskalands.

Meðal þeirra sem standa að umræddum verðlaunum er útgáfufyrirtækið Gruner und Jahr, sem gefur út fjölda vinsælla tímarita um ferðamál, auk hins þekkta vikurits „Stern“.

„Það er ótvírætt mikill heiður fyrir Icelandair að hljóta þessi „óskarsverðlaun“ þýskrar ferðaþjónustu, ekki síst þegar haft er í huga að í dómnefndinni sitja nokkrir reyndustu og áhrifamestu ferðamálafrömuðir Þýskalands“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Á myndinni tekur Arthur Björgvin Bollason, fjölmiðlafulltrúi Icelandair í Þýskalandi, við verðlaununum í Berlín í gærkvöldi.