Pingdom Check
11/19/2019 | 3:30 PM

Markmið Icelandair í jafnréttismálum kynnt í Reykjavík og Berlín

Í dag tekur Icelandair þátt í undirritun áskorunar í jafnréttismálum á vegum IATA, alþjóðasamtaka flugrekenda, á alþjóðlegri ráðstefnu IATA í Berlín. Alls skrifa 25 flugfélög undir áskorunina og setja fram markmið sín í jafnréttismálum. Á sama tíma setur Icelandair þessi sömu markmið fram á Heimsþingi kvenleiðtoga sem stendur nú yfir í Hörpu en Icelandair er einn af bakhjörlum Heimsþingsins sem vinnur að því að efla jafnrétti í heiminum.

Þróun jafnréttismála hjá Icelandair

Icelandair hefur náð góðum árangri í jafnréttismálum á undanförnum árum, t.d. með því að fjölga konum í stjórnendastöðum og er hlutfall kvenflugmanna hjá Icelandair með því hæsta sem gerist í heiminum. Árið 2008 var engin kona í stjórn félagsins og eingöngu karlar í framkvæmdastjórn. Í dag er kynjahlutfallið í stjórn félagsins 40% konur og 60% karlar og í framkvæmdastjórn 33% konur og 67% karlar. Þá er kynjahlutfall meðal annarra stjórnenda en þeirra sem sitja í framkvæmdastjórn jafnt. Þegar kemur að flugtengdum störfum var hlutfall karlflugþjóna um 5% fyrir um áratug og kvenflugmanna 6,5%. Í dag er hlutfall karlflugþjóna 9% en hlutfall kvenflugmanna 12%. Hins vegar hefur kynjahlutfall flugvirkja lítið breyst en þar er yfirgnæfandi meirihluti karlar, eða yfir 99%.

Icelandair hefur unnið markvisst að jafnréttismálum undanfarin ár. Félagið fylgir jafnréttisáætlun og hlaut jafnlaunavottun fyrr á þessu ári. Þá er Icelandair þátttakandi í Jafnvægisvog FKA en markmið hennar er að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi 40/60. Þar að auki hefur Icelandair ákveðið að leggja fjögur Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til grundvallar stefnu sinni í samfélagsábyrgð og er jafnrétti kynjanna eitt af þeim.

Jafnréttismarkmið Icelandair til 2025

Icelandair hefur sett eftirfarandi markmið í jafnréttismálum til ársins 2025:

  • Tryggja jafnt kynjahlutfall á meðal stjórnenda félagsins – hlutfall karla eða kvenna verði ekki undir 40% árið 2025.
  • Fjölga stöðugildum kvenflugmanna um 25% miðað við núverandi stöðu.
  • Fjölga stöðugildum karl flugþjóna um 25% miðað við núverandi stöðu.
  • Fjölga konum í störfum flugvirkja með því að kynna flugvirkjastörf- og nám fyrir stúlkum.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Icelandair hefur náð góðum árangri í jafnréttismálum á undanförnum árum. Við munum halda áfram að vinna að markmiðum okkar á þessu sviði enda viljum við sem flugfélag sem kennt er við Ísland geta staðið undir jafn mikilvægu hagsmunamáli fyrir okkur Íslendinga og jafnrétti er,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. „Mikilvægur liður í því að stuðla að jöfnum tækifærum er að draga úr áhrifum staðalímynda og kynna fjölbreytta starfsmöguleika fyrir báðum kynjum. Við viljum tryggja að þau störf sem við bjóðum séu aðgengileg og aðlaðandi fyrir alla.“

skýringarmynd sem sýnir þau fjögur markmið sem Icelandair hefur sett sér um kynjajafnrétti