Icelandair og Amadeus semja um upplýsingatæknisamstarf | Icelandair
Pingdom Check
04/26/2012 | 12:00 AM

Icelandair og Amadeus semja um upplýsingatæknisamstarf

Samningur um áframhaldandi samstarf Icelandair og Amadeus um margvíslega upplýsingatækniþjónustu var undirritaður í höfuðstöðvum Amadeus í Madrid í vikunni. Nýi samningurinn er til 10 ára og tekur við af fimm ára samningi frá 2006.

 

Amadeus sérhæfir sig í tæknilausnum fyrir alþjóðaflug og ferðaþjónustu og er stærsta fyrirtæki í heimi á sínu sviði. Viðskiptavinir eru m.a. flugfélög, hótel, lestir, ferjur, ferðaskrifstofur og vefsíður sem selja ferðaþjónustu. Amadeus er með skrifstofur í 74 löndum og starfsemi í 195 löndum. Í gegnum kerfi Amadeus, sem tengir saman flugfélög og ferðaþjónustufyrirtæki um allan heim, var seldur tæplega einn milljarður ferða á árinu 2011.

 

Samningur Icelandair og Amadeus felur í sér lausnir á sviði flugbókana, innritunar og birgðahalds og einnig á sviði tekjustýringar, rafrænnar miðaútgáfu og netsölu. Þá er einnig samið um tæknilausnir varðandi viðskipti með ýmiskonar aukaafurðir í flugi og ferðaþjónustu, t.d. sölu um borð og á vef Icelandair o.s.frv.

 

„Samstarfið við Amadeus er ein af undirstöðum þeirrar víðtæku þjónustu sem Icelandair getur boðið. Viðskiptavinir geta keypt af okkur flug og ýmsa aðra þjónustu um allan heim og tengslin við Amadeus gera þessi viðskipti gegnsæ, skilvirk og hagkvæm. Það er því fagnaðarefni að hafa endurnýjað þetta samstarf til næstu 10 ára, það gefur okkur tæknilegt forskot og öryggi“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.