Icelandair og JetBlue kynna víðtækara samstarf | Icelandair
Pingdom Check
05/04/2017 | 12:00 AM

Icelandair og JetBlue kynna víðtækara samstarf

Icelandair og bandaríska flugfélagið JetBlue tilkynntu í dag að félögin hafa samið sín á milli um samstarf í punktasöfnun. Það felur meðal annars í sér að félagar í Icelandair Saga Club geta nú safnað Vildarpunktum og Kortastigum á öllum flugleiðum JetBlue og á sama hátt geta félagar í TrueBlue fríðindaklúbbi JetBlue safnað punktum á öllum flugleiðum Icelandair. Icelandair fagnar samstarfinu með JetBlue með tvöföldum Vildarpunktum ef félagar fljúga fyrir 7. júlí.

„Í dag eru fimm ár síðan Icelandair og JetBlue tóku fyrstu skrefin í samstarfi sem síðan hefur styrkst ár frá ári“, segir Jamie Perry, framkvæmdastjóri markaðsmála JetBlue. „Samkomulagið sem við kynnum nú er spennandi viðbót fyrir viðskiptavini beggja flugfélaga“.

JetBlue er lággjaldaflugfélag sem hefur skapað sér sérstöðu með óvenjulegri og góðri þjónustu, einkum þekkt fyrir að bjóða upp á beinar sjónvarpsútsendingar í vélum sínum, leðursæti og mikið sætabil. Það flýgur um 35 milljónum farþega árlega til um 100 borga, að meðaltali 925 flug á dag.

„Samkomulagið við JetBlue gefur farþegum beggja flugfélaga tækifæri til þess að safna fleiri punktum en áður. Við fögnum því að geta boðið farþegum Icelandair nýja möguleika um leið og við bjóðum fjölmarga viðskiptavini JetBlue velkomna til okkar“, segir Guðmundur Óskarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair.

Undanfarin fimm ár hafa JetBlue og Icelandair átt samstarf um gagnkvæma farseðlaútgáfu á flugleiðum og með samkenndum (codeshare) flugum.

Icelandair, sem fagnar 80 ára afmæli á þessu ári, flýgur til 18 áfangastaða í Norður-Ameríku.