Icelandair og WestJet tilkynna samstarf | Icelandair
Pingdom Check
04/17/2013 | 12:00 AM

Icelandair og WestJet tilkynna samstarf

Icelandair og kanadíska flugfélagið WestJet kynntu í dag nýtt samstarf flugfélaganna sem meðal annars felur í sér sölu og farseðlaútgáfu á flugleiðum hvors annars. Viðskiptavinir Icelandair geta nú keypt einn farseðil frá Íslandi til þeirra tuga kanadísku og bandarísku borga sem WestJet flýgur til og jafnframt geta viðskiptavinir WestJet keypt miða til Íslands og Evrópulanda með flugi Icelandair.

WestJet er annað stærsta flugfélagið í Kanada og hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Það býður nú upp á flug á Boeing 737 flugvélum til 80 áfangastaða í Kanada, Bandaríkjunum, Mið-Ameríku og Karabíska hafinu út frá Toronto og öðrum helstu borgum Kanada.

„WestJet og Icelandair eiga það sameiginlegt að leggja áherslu á góða og ferska þjónustu, samstarfið styður sókn okkar í Kanada og eykur þjónustu Icelandair í Norður Ameríku“, segir Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair.

Icelandair tilkynnti nýlega um flug allt árið um kring til Toronto og flýgur tvisvar í viku til Halifax í sumar.

Todd Peterson, framkvæmdastjóri samstarfsmála WestJet, segir samning við Icelandair spennandi. “Icelandair opnar nýja og áhugaverða möguleika fyrir viðskiptavini okkar í flugi milli Norður-Ameríku og Evrópu”, segir hann.

„Þessir samningur við WestJet er í samræmi við þá stefnu okkar að tryggja sjálfstæði Icelandair og sérstöðu í alþjóðafluginu, en um leið að opna fyrir samstarf við önnur flugfélög. Við höfum nú á stuttum tíma gert nokkra mikilvæga samstarfssamninga við flugfélög beggja vegna Atlantshafsins þ.e. við Finnair, SAS, Alaska Airlines, JetBlue, Frontier og nú við WestJet, " segir Helgi Már.

Icelandair flýgur frá Keflavíkurflugvelli til Toronto og Halifax í Kanada og til 9 borga í Bandaríkjunum að auki. Þá flýgur Icelandair til 25 Evrópuborga á þessu ári.