Icelandair hefur ákveðið að fljúga allt árið til Edmonton í Kanada, en flug til og frá borginni hefst næsta vor. | Icelandair
Pingdom Check
10/17/2013 | 12:00 AM

Icelandair tilkynnir heilsársflug til Edmonton

Icelandair hefur ákveðið að fljúga allt árið til Edmonton í Kanada, en flug til og frá borginni hefst næsta vor. Áður hafði verið gert ráð fyrir að gera hlé yfir vetrarmánuðina en í ljósi eftirspurnar, jákvæðrar markaðsþróunar og bókunarstöðu er sala hafin á ferðum allt árið. Þá mun áætlunarflugið til Edmonton hefjast fyrr en áður var ætlað, eða þann 5. mars á næsta ári, eftir tæpa fimm mánuði. Flogið verður fjórum sinnum í viku.

Atvinnulíf og efnahagur í Edmonton, sem er höfuðborg Albertafylkis, er í miklum blóma um þessar mundir. Íbúar eru um 1,2 milljónir og byggja einkum á ríkulegum náttúruauðlindum í fylkinu. Þar er sömuleiðis öflugt háskóla- og vísindasamfélag. Í borginni og í Albertafylki býr mikill fjöldi fólks af norrænum uppruna og þar á meðal tugir þúsunda af íslenskum ættum. Í Edmonton er auk þess stærsta verslunarmiðstöð í allri Norður-Ameríku. Þaðan eru góðir tengiflugsmöguleikar innan Kanada og m.a. í samstarfi Icelandair við kanadíska flugfélagið WestJet.

Flugáætlun Icelandair fyrir árið 2014 verður sú stærsta í sögu félagsins og um 18% umfangsmeiri en á þessu ári. Flug verður hafið til þriggja nýrra áfangastaða, Edmonton, Vancouver og Genfar, og ferðum fjölgað til ýmissa borga í Norður-Ameríku og Evrópu. Gert er ráð fyrir að farþegar Icelandair verði rúmlega 2,6 milljónir á árinu 2014, en eru á þessu ári um 2,3 milljónir. Alls verður 21 Boeing-757 flugvél nýtt til farþegaflugsins næsta sumar, þremur fleiri en á þessu ári. Með nýjum loftferðasamningi milli Íslands og Kanada á þessu ári opnast félaginu aukin og áhugaverð tækifæri í flugi milli landanna og tengiflugi til Evrópulanda.