Pingdom Check
05/09/2017 | 12:00 AM

Icelandair tilkynnir heilsársflug til Vancouver

Icelandair hefur ákveðið að auka við flug félagsins til Vancouver á vesturströnd Kanada og næsta vetur verður flogið til borgarinnar tvisvar í viku. Icelandair hóf flug til Vancouver 2014 og fram að þessu hefur hlé verið gert á fluginu yfir veturinn, en nú er borgin orðinn heilsársstaður í leiðakerfi Icelandair.

Borgin er sú stærsta á vesturströnd Kanada með um 2,3 milljónir íbúa. Hún er þykir afar falleg og er iðulega valin eftirsóttasta og besta borg í heimi til búsetu. „Flugið til Vancouver hefur gefið góða raun og við sjáum nú tækifæri til þess að bæta staðnum við heilsársleiðakerfið okkar”, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdasstjóri Icelandair.

Eitt af því sem dregur fólk alls staðar að úr heiminum til borgarinnar á veturna er nálægðin við skíðastaðinn Whistler, sem var miðpunktur vetrarólympíuleikanna 2010 í Vancouver og þykir einn sá besti í heiminum.

Vancouver er tíundi staðurinn í Norður-Ameríku sem Icelandair flýgur til allt árið, en hinir eru Edmonton, Seattle, Denver, New York JFK, New York Newark, Toronto, Boston, Chicago og Washington. Árið 2012 var aðeins flogið til þriggja borga í Norður-Ameríku allt árið.

Áætlað er að farþegar Icelandair á yfirstandandi ári verði um rúmlega fjórar milljónir og muni fjölga um 450 þúsund frá því í fyrra. Flug verður hafið til tveggja nýrra áfangastaða, Philadelphia og Tampa, og ferðum fjölgað til fjölmargra borga í Norður-Ameríku og Evrópu. Alls verða 30 flugvélar nýttar til farþegaflugsins, en tvær Boeing 767 vélar bættust nýlega við flota félagsins.