Icelandair tilkynnir samstarf við Porter Airlines, Rossiya Airlines og Air Greenland
Icelandair hefur undirritað samkomulag við þrjú flugfélög, Porter Airlines í Kanada, Rossiya Airlines í Rússlandi og Air Greenland í Grænlandi. Samstarf Icelandair við þessi flugfélög felur meðal annars í sér sölu og farseðlaútgáfu á flugleiðum þannig að viðskiptavinir Icelandair geta nú keypt einn farseðil frá Íslandi til þeirra tuga áfangastaða sem þessi þrjú félög fljúga til í sitt hverjum heimshlutanum og jafnframt geta viðskiptavinir þeirra keypt miða til Íslands, Evrópulanda og Norður-Ameríku með flugi Icelandair.
Porter Airlines, sem hefur höfuðstöðvar í Toronto flýgur til um 20 áfangastaða í Kanada og Bandaríkjunum og býður upp á góðar tengimöguleika fyrir viðskiptavini Icelandair.
Rossiya Airlines er stærsta flugfélagið í St Pétursborg, sem Icelandair hóf áætlunarflug til í vor, og býður upp á tengingar við tugi borga í Rússlandi og víðar.
Air Greenland er þjóðarflugfélag Grænlendinga og býður upp á flug með flugvélum og þyrlum til fjölmarga bæja og byggða í Grænlandi.
“Samstarfið við flugfélögin eykur þjónustu við farþega, stækkar leiðakerfið og styður sókn okkar og tækifæri á ólíkum og vaxandi mörkuðum“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.
„Þessir samningar eru í samræmi við þá stefnu okkar að tryggja sjálfstæði Icelandair og sérstöðu í alþjóðafluginu, en um leið efla samstarf við lykilflugfélög. Við höfum nú á stuttum tíma gert og endurnýjað samstarfssamninga við flugfélög beggja vegna Atlantshafsins eins og Finnair, SAS, Alaska Airlines, JetBlue, Frontier, WestJet og nú Porter Airlines, Rossiya og Air Greenland," segir Birkir.
Icelandair flýgur frá Keflavíkurflugvelli til Toronto og Halifax í Kanada og til 9 borga í Bandaríkjunum að auki. Þá flýgur Icelandair til St Pétursborgar í sumar og 24 annarra Evrópuborga á þessu ári.