Icelandair verðlaunað í Denver
Icelandair og alþjóðaflugvöllurinn í Denver hlutu viðurkenninguna "2011 Tourism Star" á hátíðarkvöldi ferðaþjónustunnar í Denver sem haldin var miðvikudagskvöld þar í borg. Þykir flug Icelandair til og frá borginni, sem hefst í vor, sæta miklum tíðindum, enda langþráður draumur ferðaþjónustunnar að fá beint flug með mikla tengimöguleika frá Evrópu til borgarinnar. "Ferðastjarnan" er árlega afhent þeim sem skara fram úr í ferða- og ráðstefnuþjónustu í Colorado fylki.
Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair tók við viðurkenningunni fyrir hönd félagins við hátíðlega athöfn í Denver í gærkvöldi. Sérstakur sjóður á vegum ferðamálaráðs borgarinnar stendur á bak við athöfnina sem kölluð er Denver Tourism Hall of Fame.
Á myndinni er Helgi Már, annar frá hægri, ásamt forstjóra Denverflugvallar og forystu ferðamálaráðs borgarinnar við móttöku viðurkenningarinnar.