Icelandair: Viðurkenning fyrir bestu stundvísina | Icelandair
Pingdom Check
04/17/2009 | 12:00 AM

Icelandair: Viðurkenning fyrir bestu stundvísina

Icelandair: Viðurkenning fyrir bestu stundvísina

Í dag afhenti Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, starfsfólki stjórnstöðvar Icelandair á Keflavíkurflugvelli viðurkenningu fyrir nýtt met í stundvísi félagsins. Á fyrstu þremur mánuðum ársins komu og fóru farþegaþotur Icelandair á réttum tíma í 92,6% tilvika. Fyrra metið var sett árið 2003 en það var 84,7% stundvísi.  Meðaltal hjá flugfélögum innan Samtaka evrópskra flugfélaga, AEA, var 68,3% til 80,4% eftir lengd fluga á þessum sama árstíma á síðasta ári.

"Stundvísi er einn af höfuð áhersluþáttum í rekstri Icelandair", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. "Utanaðkomandi óviðráðanlegir þættir eins og veður, önnur flugumferð og bilanir hafa jafnan áhrif á stundvísina og hvað þetta varðar höfum við verið heppin í vetur. En við hjá Icelandair höfum einnig gert átak til að auka stundvísi og á síðasta ári tók til starfa ný stjórnstöð Icelandair á Keflavíkurflugvelli, Network Control Center, sem hefur það m.a. að markmiði að reka leiðakerfi félagsins frá degi til dags, fyrirbyggja hugsanlegar tafir og bregðast hratt við óvæntum uppákomum. Við sjáum góðan árangur af þessum breytingum og þessar stundvísitölur Icelandair í vetur eru fáséðar hjá flugfélögum.

"Góð stundvísi flugfélags byggir á samvinnu sterkrar liðsheildar og auk stjórnstöðvarinnar er þáttur áhafna um borð og viðhaldsstöðvar í þessum árangri stór. Stundvísin skiptir viðskiptavini okkar miklu máli og við höfum sett okkur háleit markmið hvað þennan þjónustþátt varðar", segir Birkir Hólm.

Stundvísi flugfélaga er mæld með þeim hætti að ef innan við 15 mínútur líða á milli áætlunartíma og raunverulegrar brottfarar frá hliði telst flugvélin hafa farið á réttum tíma. Flestar seinkanir eru innan við 30 mínútna langar.

Myndin var tekin þegar Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdasstjóri Icelandair, afhenti Ástþóri Ingasyni, forstöðumanni stöðvareksturs Icelandair, viðurkenninguna  í stjórnstöðinni á Keflavíkurflugvelli í dag. Myndina tók Hilmar Bragi.