Pingdom Check
04/09/2019 | 12:00 AM

Icelandair Group hlýtur jafnlaunavottun

Icelandair Group hlaut á dögunum jafnlaunavottun fyrir stærsta hluta starfsemi sinnar en slík vottun er staðfesting á því að unnið sé markvisst gegn kynbundnum launamun og þannig stuðlað að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Vottunin nær yfir starfsmenn Icelandair Group, Icelandair, Icelandair Hotels og Icelandair Cargo en starfsmenn í þessum einingum félagsins voru rúmlega fjögur þúsund talsins í lok árs 2018. Icelandair Group er stærsta einkafyrirtæki landsins til að hljóta jafnlaunavottun.

„Við erum mjög ánægð með þennan áfanga. Formleg jafnlaunavottun er mikilvæg staðfesting á því að launaákvarðanir hjá Icelandair Group séu unnar á faglegan, málefnalegan og gagnsæjan hátt með verðmæti starfa að leiðarljósi. Jafnrétti er forgangsmál hjá okkur og við höfum náð töluverðum árangri á undanförnum árum til dæmis við að fjölga konum í stjórnendastöðum. Þá er hlutfall kvenflugmanna hjá okkur hærra en hjá nokkru öðru flugfélagi á Vesturlöndum,“ segir Elísabet Helgadóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá Icelandair Group. „Við munum halda áfram að vinna að metnaðarfullum markmiðum okkar á þessu sviði enda viljum við sem flugfélag sem kennt er við Ísland geta staðið undir jafnmikilvægu hagsmunamáli fyrir okkur Íslendinga og jafnrétti er.“

Í október sl. skrifaði forstjóri Icelandair Group jafnframt undir viljayfirlýsingu vegna Jafnvægisvogar FKA. Markmið Jafnvægisvogarinnar er að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi 40/60. Hlutfall kvenna í framkvæmdastjórn Icelandair Group í dag er 33% en hlutfall forstöðumanna og framkvæmdastjóra sem ekki sitja í framkvæmdastjórn félagsins er 41% konur og 59% karlar.

Icelandair Group vinnur samkvæmt jafnlaunastefnu sem er órjúfanlegur hluti af mannauðsstefnu félagsins og skuldbindur sig til að tryggja að jöfn laun séu greidd fyrir jafnverðmæt störf óháð kyni. Jafnlaunastefnan er unnin í samræmi við lög nr. 10/2008 og skv. jafnlaunastaðlinum ÍST 85.

Á myndinni eru f.v. Elísabet Helgadóttir framkvæmdastjóri mannauðs, Gunnar Már Sigurfinnsson framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, Magnea Þórey Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Icelandair Hotels og Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group.