Pingdom Check
09/23/2015 | 12:00 AM

Samstarf Icelandair og Alaska Airlines

Icelandair og bandaríska flugfélagið Alaska Airlines tilkynntu í dag að félögin hafa á ný samið sín á milli um samstarf sem einkum snýr að samstarfi milli vildarklúbba félaganna og samkenndum flugum.

Félagar í Icelandair Saga Club geta nú safnað Vildarpunktum og nýtt Vildarpunkta öllum flugleiðum Alaska Airlines, á sama hátt og félagar í „Alaska Airlines Mileage Plan“ á öllum flugleiðum Icelandair.

Samningurinn felur einnig í sér að fjölmörg flug Alaska Airlines verða samkennd báðum félögunum (á ensku codeshare) og þannig býðst viðskiptavinum Icelandair flug t.d. um Seattle á flugnúmerum Icelandair m.a. til Los Angeles, San Francisco og Las Vegas.

Alaska Airlines hefur höfuðstöðvar sínar og aðal tengistöð í Seattle, er þar stærsta flugfélagið og flýgur til yfir 100 áfangastaða, einkum í vesturhluta Bandaríkjanna, en einnig til Kanada og Mexíkó.

"Við hófum samstarf við Alaska Airlines skömmu eftir að við hófum flug þangað fyrir sex árum og endurnýjum það nú eftir tveggja ára hlé. Við höfum jafnt og þétt aukið flug okkar til Seattle og bjóðum nú í vetur upp á daglegt flug til borgarinnar.  Alaska Airlines rekur stórt leiðakerfi út frá Seattle og góðar tengingar fyrir þá farþega okkar til sem ætla lengra", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Alaska Airlines er eitt af stærstu flugfélögum Bandaríkjanna. Það var stofnað 1932 og flýgur til yfir 100 áfangastaða. Það og systurfyrirtækið Horizon Air, sem samningurinn við Icelandair nær einnig til, eru í eigu Alaska Air Group.