St. Pétursborgarflug Icelandair hófst í morgun 1. júní
Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á beint áætlunarflug á milli Íslands og Rússlands og því um tímamót í samgöngusögunni að ræða. Flogið verður tvisvar í viku til 17. september.
“Hugmyndin með þessu flugi er að opna okkur og íslenskri ferðaþjónustu nýja leið inn á Rússlandsmarkað, sem er afar stór og vaxandi ferðamannamarkaður. Um leið erum við að bjóða Íslendingum nýjan og spennandi áfangastað í beinu flugi”, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.
Rússneskum ferðamönnum hefur fjölgað jafnt og þétt hér á landi sem í öðrum Evrópulöndum á undanförnum árum og það skapar grundvöll fyrir þessu beina áætlunarflugi.
Þá er St. Pétursborg mikil ferðamannaborg sem einkennist af sögufrægum gömlum byggingum, mikilli listastarfsemi, fjölskrúðugu hótel- og veitingastaðaframboði og lifandi mannlífi. Íbúar eru um 5 milljónir. Borgin stendur við botn Finnlandsflóa inn af Eystrasalti og áin Neva er áberandi í borgarlandslaginu.
Með fluginu nýtir Icelandair einnig þá möguleika sem felast í leiðakerfi félagsins og tengiflugi milli Rússlands og Bandaríkjanna. Flug frá St. Pétursborg til Íslands tekur tæplega 4 klukkustundir og tímamunur milli borgarnnar og Íslands er sömuleiðis 4 klukkustundir. Því er unnt að fljúga kl. 09.40 að morgni frá St. Pétursborg og lenda á Keflavíkurflugvelli kl. 09:40 að íslenskum tíma. Þannig geta farþegar auðveldlega náð beinu áframhaldandi morgunflugi Icelandair til New York og Boston með aðeins um einnar klukkustundar tengitíma í Leifsstöð og til annarra áfangastaða vestan hafs síðdegis sama dag, auk þess sem boðið er upp á viðdvöl, svokallað “stop-over” á Íslandi.
Jafnframt hafa Icelandair og rússkenska flugfélagið Rossyia gengið frá samstarfssamningi um samtengd flug á þessari flugleið, sem opnar frekari leiðir inn á rússneska markaðinn. Russyia er rússnekst flugfélag með höfuðstöðvar í St Pétursborg, það rekur 30 flugvélar og býður upp á góðar tengingar til og frá Péturborg.
Í dag er einnig fyrsta flug félagsins til Zurich í Sviss og fyrir tveimur vikum hófst flug félagsins til Anchorage í Alaska. Alls flýgur Icelandair til 35 áfangastaða í sumar, 10 í Norður-Ameríku og 25 í Evrópu. Áætlun félagsins á þessu ári er sú stærsta frá upphafi og er gert ráð fyrir að flytja um 2,3 milljónir farþega á árinu.
Myndir:
Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair og Volker Wenderfeuer, framkvæmdastjóri Pulkovo flugvallar í St Pétursborg klippa á borða og marka með því upphaf áætlunarflugs milli Íslands og Rússlands, að viðstaddri áhöfn fyrsta flugsins.
Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair og Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs félagsins við innritunarborð sem merkt er flugi félagsins frá Keflavík.