Stærsti styrktarsamningur íþróttahreyfingarinnar
Icelandair aðalstyrktaraðili ÍSÍ, KSÍ, HSÍ, KKÍ og GSÍ
Í dag voru undirritaðir einhverjir umfangsmestu styrktarsamningar í sögu íslensku íþróttahreyfingarinnar, þegar Icelandair gerðist aðalstyrktaraðili Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og um leið fjögurra sérsambanda innan þess, þ.e. KSÍ, HSÍ, KKÍ og GSÍ. Samningarnir fela í sér margháttað samstarf og eru til þriggja ára.
„Icelandair hefur um árabil átt gott samstarf við íþróttahreyfinguna og það er mjög ánægjulegt að geta staðfest áframhaldandi samstarf og stuðning með þessum hætti. Íþróttir gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki og eru auk þess mikill drifkraftur ferðalaga um allan heim. Íslendingar eiga margt afreksfólk á heimsmælikvarða sem veita landsmönnum mikla ánægju og eru öðrum þátttakendum hvatning til dáða“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.
Gífurleg aukning hefur orðið á íþróttatengdum ferðalögum á undanförnum árum um allan heim. Á vegum Icelandair ferðast árlega tugir þúsunda farþega vegna íþrótta, bæði sem iðkendur og áhorfendur. Algengustu iðkendaferðir tengjast golfi og skíðaíþróttinni en þegar kemur að áhorfendaferðum er það fótboltinn í Englandi sem nýtur mestra vinsælda. Þá eru hér á landi árlega fjöldamargir leikir og fjölmenn alþjóðleg íþróttamót sem laða að þáttakendur alls staðar að úr heiminum. „Okkar bestu íþróttamenn vekja sömuleiðis mikla athygli fjölmiðla og íþróttaáhugafólks úti í heimi og eru góð kynning á landinu, á sama hátt og fremsta tónlistarfólk okkar, en Icelandair hefur einmitt lagt áherslu á íþróttir og tónlist í styrktarstefnu sinni“, segir Birkir.
Samningurinn sem undirritaður var í dag felur í sér víðtækt samstarf Icelandair og þessara íþróttasambanda og meðal annars að öll landslið Íslands í fótbolta, handbolta, körfubolta og golfi og keppnisfólk á vegum ÍSÍ í öllum aldursflokkum karla og kvenna geta nýtt sér áætlunarflug Icelandair til yfir 30 áfangastaða.
„Það öfluga leiðakerfi sem Icelandair hefur byggt upp, með tíðum ferðum til allra helstu borga í Evrópu og Bandaríkjunum, er ein af forsendum þess að íþróttalífið hefur náð að blómstra á Íslandi. Okkar besta íþróttafólk eru heimsborgarar og landsliðsfólkið býr vítt og breytt um Evrópu. Án frábærra flugsamgangna væri þátttaka okkar t.d. í Evrópu- og heimsmeistaramótum algjörlega óhugsandi. Þess vegna fögnum við þessu samstarfi við Icelandair mjög“, segir Ólafur Rafnsson, formaður Íþrótta og Ólympíusambands Íslands.
Samninginn í dag undirrituðu forystumenn íþróttasambandanna og Icelandair.