Stjórn Icelandair Group samþykkir umhverfisstefnu og rannsóknarstyrki á hátíðarfundi á Akureyri . | Icelandair
Pingdom Check
06/02/2012 | 12:00 AM

Stjórn Icelandair Group samþykkir umhverfisstefnu og rannsóknarstyrki á hátíðarfundi á Akureyri .

Stjórn Icelandair Group samþykkir umhverfisstefnu og rannsóknarstyrki á hátíðarfundi á Akureyri í dag

Stjórnarfundur Icelandair Group var haldinn á Akureyri í dag, 2. júní, í tilefni af 75 ára afmæli félagsins. Það var stofnað á Akureyri þann 3. júní 1937 og hét upphaflega Flugfélag Akureyrar. Með starfsemi í nafni Flugfélags Íslands og Loftleiða og síðan Flugleiða hefur fyrirækið gegnt lykilhlutverki í flugsamgöngum og ferðamálum þjóðarinnar frá upphafi. Á þessu ári er starfsemin umfangsmeiri en nokkru sinni fyrr í sögu þess. Á stjórnarfundinum í dag voru tímamótin mörkuð með tveimur stefnumótandi verkefnum:

Stefnt að umhverfisvottun

Leiðakerfi Icelandair milli Íslands og annarra landa er kjarninn í starfsemi Icelandair Group, og landið sjálft, staðsetning þess og náttúra er undirstaða leiðakerfisins. Icelandair Group hefur í dag mótað þá stefnu að öll fyrirtæki innan samstæðunnar verði umhverfisvottuð ekki síðar en árið 2016 og undirstriki þannig þá sýn félagsins að náttúran er helsta aðdráttarafl ferðamanna sem koma til landsins, og verndunar- og endurnýjunarstarf gagnvart náttúru og auðlindum landsins er forsenda fyrir vexti og viðgangi Icelandair Group. Nú þegar hafa einstök félög innan samstæðunnar verið vottuð eða eru í vottunarferli, en í dag hefur stjórnin ákveðið að öll félögin ljúki þeirri vinnu fyrir 2016.

Rannsóknir á sviði ferðamála verði efldar

Til að undirstrika stefnu og sýn félagsins enn frekar, þá hefur stjórn Icelandair Group einnig samþykkt að efna til samstarfs við Háskólann á Akureyri, sem um þessar mundir fagnar 25 ára afmæli, um rannsóknir á sviði ferðamála. Icelandair Group mun veita til þess starfs styrk að upphæð 5 milljónir króna árlega næstu þrjú árin eða samtals 15 milljónum króna. Margoft hefur verið bent á að ferðaþjónustan á Íslandi er ung grein og að nokkuð skorti á þekkingu á ýmsum þáttum hennar, rannsóknir og betri upplýsingar um markaði, gangverk og þróun greinarinnar svo tryggja megi framfarir og draga úr áhættu þeirra sem í henni starfa. Icelandair Group vill með þessu framlagi efla og styðja við mikilvægt rannsóknarstarf Háskólans á Akureyri á þessu sviði. Sigurður Helgason, stjórnarformaður, Björgólfur Jóhannsson, forstjóri og Stefán B. Sigurðsson, háskólarektor undirrituðu samkomulag þessa efnis við athöfn að loknum fundinum í dag.

Stjórnarfundurinn var haldinn á Icelandair Hótel Akureyri sem var opnað á síðasta ári, en nú um mánaðamótin er það stækkað um 37 herbergi og býður nú upp á alls 100 herbergi.  Í máli Björgólfs Jóhannssonar, forstjóra Icelandair Group, að loknum stjórnarfundinum kom einnig fram að fjölmargir erlendir ferðamenn munu nýta sér beint tengiflug Icelandair milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar sem boðið er upp á í sumar. Þá gat hann þess að eftir góða reynslu á síðasta vetri hefur nú komið í ljós á vormánuðum að mjög mikill áhugi er erlendis í ferðir sem samanstanda af dvöl í Reykjavík og Akureyri og dagsferð að Mývatni í leit að norðurljósum. Má gera ráð fyrir að margfalt fleiri muni njóta þessara ferða á næsta vetri en á þeim síðasta.