Pingdom Check
12/29/2020 | 1:00 PM

Þakkir í lok árs

Á árinu sem nú er að líða höfum við fundið það á eigin skinni hversu háð við sem eyþjóð erum góðum flugsamgöngum til að viðhalda lífsgæðum og hagsæld hér á landi. Í upphafi ársins óraði engan fyrir því að heimsfaraldur myndi gjörbreyta daglegu lífi fólks um allan heim. Þær öflugu flugsamgöngur og tengingar á milli landa sem við höfum vanist stöðvuðust nær alfarið með tilheyrandi áhrifum á hagkerfið og þjóðfélagið allt.

Icelandair og forverar þess hafa fylgt íslensku þjóðinni í áratugi og gegnt mikilvægu hlutverki við að tengja land og þjóð við umheiminn ásamt því að sinna nauðsynlegum vöruflutningum í yfir 80 ár. Landfræðileg staðsetning landsins gefur okkur tækifæri til að byggja upp tengimiðstöð í flugi milli Evrópu og Norður-Ameríku og samhliða því öfluga ferðaþjónustu hér á landi, öllum til heilla.

Sem íslenskt flugfélag höfum við byggt upp mikla reynslu og þekkingu til að takast á við ýmiss konar krefjandi aðstæður, hvort sem það eru slæm veður, eldgos eða fjármálahrunið fyrir um áratug. Árið sem er að líða hefur þó verið ólíkt öllum öðrum. Starfsemi Icelandair gjörbreyttist á örfáum vikum úr því að selja flugmiða og flytja fólk á milli landa, í það að finna nýjar lausnir fyrir viðskiptavini í kjölfar stórfelldra niðurfellinga á flugi vegna ferðatakmarkana um allan heim. Þetta fól í sér breytingar á leiðakerfi og flugáætlun, endurgreiðslur, inneignir og ekki síst að koma þeim á áfangastað sem gátu og ætluðu sér að ferðast.

Átak og útsjónarsemi

Við lok ársins er mér þakklæti efst í huga. Ég þakka viðskiptavinum okkar fyrir stuðninginn og þolinmæðina. Fjölmargir sátu uppi með ónotaða flugmiða en til að byrja með tók það okkur langan tíma að leysa úr málum farþega þar sem við höfðum hvorki mannskap né umgjörðina til að takast á við fleiri beiðnir en nokkru sinni fyrr um breytingar og endurgreiðslur flugmiða. Með samhentu átaki starfsfólks höfum við þó náð utan um þessi mál en síðan í mars höfum við gert breytingar á yfir 500 þúsund flugmiðum og þar af endurgreitt yfir 300 þúsund flugmiða.

Þá erum við ekki síður auðmjúk og þakklát fyrir þann mikla meðbyr og traust sem Icelandair Group var sýnt í vel heppnuðu hlutafjárútboði í september síðastliðnum. Á undanförnum árum hafa hluthafar í félaginu að mestu verið fagfjárfestar og var það því ánægjulegt að sjá metþátttöku almennings í útboðinu. Hluthöfum félagsins fjölgaði um ríflega átta þúsund og eru nú yfir þrettán þúsund talsins. Við ætlum svo sannarlega að standa undir því trausti sem okkur er sýnt og vinnum nú hörðum höndum við að undirbúa það að koma sterk til baka um leið og aðstæður batna.

Á sama tíma og mér er þakklæti efst í huga gagnvart íslensku þjóðinni, þá er ljóst að við hefðum ekki komist í gegnum þetta ár nema fyrir tilstilli starfsfólks Icelandair Group. Með þrautseigju og samheldni hafa allir lagst á eitt til að vinna úr krefjandi aðstæðum. Hvort sem um ræðir breytta þjónustu við viðskiptavini, að stýra leiðakerfi í óvissuástandi, að viðhalda flugvélum í kyrrstöðu eða viðamikla fjárhagslega endurskipulagningu sem við lukum í haust til að tryggja framtíð félagsins. Þar að auki, á sama tíma og farþegaflug var í lágmarki, náði okkar útsjónarsama starfsfólk að skapa félaginu ný tækifæri í fraktflutningum og leiguflugi. Sem dæmi um þetta voru 80 flugferðir með mikilvægar lækninga- og hjúkrunarvörur frá Kína til Evrópu og Norður-Ameríku. Þessi verkefni ásamt óteljandi öðrum úrlausnum eru til marks um þau miklu verðmæti, reynslu og þekkingu sem eru til staðar meðal starfsfólks. Það eru forréttindi að fá að vinna með jafn öflugum hópi fólks. Á sama tíma er það þyngra en tárum taki að hafa séð á eftir ríflega tvö þúsund frábærum samstarfsmönnum á árinu. Við vonum að sjálfsögðu að flestir þeirra komi til baka sem allra fyrst.

Hefjum okkur til flugs

Heimsbyggðin glímir enn við mikinn vanda sem kórónuveiran hefur valdið. Við Íslendingar höfum alla burði til að standa þennan storm af okkur með því að halda vel á spilunum. Ísland verður áfram eftirsóttur áfangastaður ferðamanna og hér eru kjöraðstæður til að laða að ferðamenn í kjölfar faraldursins – víðerni, öryggi og fámenni.

Við hjá Icelandair Group höldum ótrauð áfram að byggja á okkar trausta grunni og áratuga reynslu og sinna mikilvægu hlutverki okkar af kostgæfni – að tryggja öflugar flugsamgöngur til og frá Íslandi og bjóða góðar tengingar milli Evrópu og Norður-Ameríku.

Við hlökkum til að sjá ykkur á flugi sem allra fyrst. 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 28. desember sl.