Tuttugu og fimm fjölskyldur fá ferðastyrk Vildarbarna | Icelandair
Pingdom Check
04/22/2012 | 12:00 AM

Tuttugu og fimm fjölskyldur fá ferðastyrk Vildarbarna

 

25 börnum og fjölskyldum þeirra var afhentur ferðastyrkur úr sjóðnum Vildarbörn Icelandair í dag. Alls bárust um 300 umsóknir að þessu sinni.

Markmið sjóðsins Vildarbörn er að gefa langveikum börnum, foreldrum þeirra og systkinum, tækifæri til þess að fara í draumaferð sem þau ættu annars ekki kost á. Alls hafa tæplega 330 fjölskyldur notið stuðnings frá sjóðnum frá stofnun hans. Þetta er 18. úthlutun sjóðsins og 9. starfsár hans.

Að þessu sinni barst Vildarbörnum höfðingleg gjöf frá aðstandendum Eduardo Andreu, sem rak ferðaskrifstofu í Florida og var helsti samstarfsaðili Icelandair þar um langt árabil. Hann aðstoðaði einmitt margar fjölskyldur Vildarbarna í Orlando af mikilli alúð. Eduardo lést í janúar sl. og við úthlutun í dag færði eftirlifandi maki hans, David Moyer, Vildarbörnum að gjöf fimm þúsund dollara til minningar um hann.

Sjóðurinn Vildarbörn er fjármagnaður með beinu fjárframlagi Icelandair, frjálsum framlögum félaga í Saga Club Icelandair sem geta gefið af Vildarpunktum sínum, með söfnun myntar um borð í flugvélum Icelandair, sölu á Vildarenglinum um borð í vélum Icelandair og söfnunarbaukum á Keflavíkurflugvelli og söluskrifstofu Icelandair.

Í hverjum styrk frá sjóðnum felst skemmtiferð fyrir barnið og fjölskyldu þess, og er allur kostnaður greiddur - flug, gisting, dagpeningar og aðgangseyrir að sérstökum viðburði sem barnið óskar sér. Við síðustu úthlutanir hafa margar fjölskyldanna valið að fara til Flórída og heimsækja Disneyland.

Starfsemi Vildarbarna Icelandair byggir á hugmyndum og starfi Peggy Helgason, eiginkonu Sigurðar Helgasonar, sem lengi var forstjóri Flugleiða og nú stjórnarformaður Icelandair Group, en Peggy hefur um árabil unnið sem sjálfboðaliði á barnadeildum sjúkrahúsa í Reykjavík og stutt fjölskyldur fjölda veikra barna með ýmsum hætti. Hún er nú í stjórn Vildarbarna Icelandair. Verndari sjóðsins er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, en Sigurður Helgason er formaður stjórnar hans.