2 milljónasta farþegann, Icelandair, vildarpunkta, Saga Club | Icelandair
Pingdom Check
12/22/2012 | 12:00 AM

Tvímilljónasti farþegi Icelandair á árinu hlaut tvær milljónir vildarpunkta

Icelandair flutti í dag 2 milljónasta farþegann á árinu. Farþeginn reyndist vera Þórunn Anna Karlsdóttir, sem var á leið til Boston, með flugi Icelandair FI631, sem fór frá Keflavíkurflugvelli kl. 17.00 síðdegis. Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair afhenti henni glaðning við innritun í flugið; blómvönd og tvær milljónir vildarpunkta Saga Club.

Þetta er í fyrsta sinn í 75 ára sögu Icelandair sem farþegafjöldinn í áætlunarflugi fer yfir tvær milljónir á einu ári. Eldra metið var sett á síðasta ári þegar farþegar voru tæplega 1,8 milljónir. Samkvæmt áætlunum félagsins fyrir árið 2013 mun farþegum fjölga um 300 þúsund og verða um 2,3 milljónir á næsta ári. Farþegafjöldi Icelandair hefur vaxið mjög á undanförnum árum eftir samdráttinn sem varð 2008 og 2009 vegna efnahagshrunsins.

Á myndinni eru Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, Þórunn Anna Karlsdóttir og Nanna Hansdóttir, móðir hennar, en þær mæðgur voru samferða á leið til Bandaríkjanna.

Nokkur umræða hefur orðið að undanförnu, m.a. á samfélagsmiðlum, um það hvernig rétt sé að segja 2 milljónasti farþeginn. Flestir virðast á þeirri skoðun að einfaldast og fallegast sé að nota orðið “tvímilljónasti” frekar en aðra kosti, s.s. tvö milljónasti, tvær milljónasti, tveggja milljónasti eða annar milljónasti.