Vél Icelandair með björgunarsveit til Haiti
Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin var meðal þeirra fyrstu sem komu til Haiti eftir jarðskjálftann sem reið yfir á þriðjudag. Hlutverk hennar er meðal annars að koma upp fjarskiptatækjum, samhæfingarstöð aðgerða og undirbúa komu annarra björgunarsveita, í samvinnu við fulltrúa Sameinuðu Þjóðanna.
10 tonn af rústabjörgunarbúnaði voru ferjuð um borð í Öskju, vél Icelandair
Vél Icelandair, Askja, lenti kl. 21 á miðvikudagskvöld (16.30 að staðartíma) eftir að hafa millilent í Boston til að taka eldsneyti. Viðbragðstími íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar þótti einstaklega góður og vakti millilendingin í Boston athygli þarlendra fjölmiðla (NECN.com).
Sveitin samanstendur af 30 björgunarmönnum. Hún hefur meðferðis 10 tonn af rústabjörgunarbúnaði, 3 tonn af vatni, tjaldbúðir fyrir sveitina, fullkominn fjarskiptabúnað og vatnshreinsibúnað. Hægt er að halda sveitinni úti án utanaðkomandi aðstoðar í allt að 7 daga.
Afferma þurfti vélina með handafli, þar sem enginn búnaður til slíks var tiltækur á flugvellinum og þurfti sveitin að hafa hraðar hendur þar sem einungis þrjár klukkustundir gáfust til að finna öruggan stað fyrir búðir sveitarinnar áður en myrkur skall á. Myndin var tekin á flugvellinum í Port au Prince skömmu eftir að vélin lenti þar.
Slysavarnafélagið Landsbjörg vill koma á framfæri þökkum til starfsfólks Icelandair sem hefur staðið sig afar vel í þessu ferli og séð vel um björgunarsveitina á leið á áfangastað.
Tíu tonn af rústabjörgunarbúnaði ferjuð um borð ásamt þremur tonnum af vatni