Pingdom Check
04/16/2012 | 12:00 AM

Vildarklúbbur Icelandair verður Saga Club og eykur fríðindi félaga

Icelandair hefur ákveðið að gera breytingar á starfsemi Vildarklúbbs félagsins, auka fríðindi félaga og kynnir nýtt nafn hans; Saga Club.

Saga Club Icelandair er fríðinda- og tryggðarkerfi Icelandair. Í heild eru 310 þúsund félagar í Saga Club og þar af 180 þúsund á Íslandi. Stærstur hluti félaga er á aldrinum 25 – 55 ára. Félagar safna Vildarpunktum með því að fljúga með Icelandair og versla um borð, með því að nota kreditkort samstarfsfyrirtækjanna VISA og American Express o.fl.

„Mjög stór hluti þjóðarinnar er í klúbbnum og við erum nú að þróa þjónustuna í samræmi við vilja og óskir félaganna. Við munum t.d. núna leyfa notkun Vildarpunkta sem greiðslu upp í öll flug með Icelandair. Nú geta félagar notað vildarpunkta til að kaupa allar vörur í Saga Shop um borð í vélum Icelandair. Þá höfum við þróað bókunarvél klúbbsins á netinu, sem gefur félögum okkar fleiri kosti í að bóka flug fyrir punktana sína og aukið framboð. Á sama tíma viljum við hvetja félaga okkar að bóka með fyrirvara til að ná bestu Vildarpunktaverðunum en nú er t.d. tilvalið að bóka Vildarferð fyrir haustið.“, segir Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir, forstöðumaður Saga Club.

Auk þessa geta félagar nýtt punkta sína til kaupa á hótelgistingu  um allan heim í gegnum Hilton og Radisson, og í samstarfi við Points.com geta félagar keypt gjafabréf hjá fjölmörgum verslunum og fyrirtækjum í Bandaríkjunum. Áherslan er þannig lögð á ferðalög og upplifun tengda ferðalögum.

Þá eru punktagjafir félaga ein af undirstöðum Vildarbarnasjóðsins, sem gerir langveikum börnum og fjölskyldum þeirra kleift að fara í draumaferð til áfangastaða Icelandair.