Allt alþjóðlegt flug til Færeyja lendir á eynni Vágar og ferðalöngum er ráðlagt að staldra þar við í upphafi eða við lok ferðar. Á eynni er úrval fjalla sem henta vel fyrir göngur, tilkomumiklir fossar og hrikalegir en ægifagrir klettadrangar.
Eyjan er byggð nokkrum smáþorpum. Þeirra á meðal er Gásadalur, en staðurinn er annálaður fyrir náttúrufegurð sína, einkum fyrir hinn 30 metra háa Múlafoss sem fellur til sjávar fram af klettabrún í stuttri göngufjarlægð frá bænum.
Á ferðalagi um Færeyjar gefur náttúran ósjaldan tilefni til að staldra við, tæma hugann og njóta kyrrðarinnar. Og til að hugleiða samband manns og óblíðrar náttúru gegnum aldirnar ellefu sem liðnar eru frá því eyjarnar byggðust fyrst á 9. öld.
Heimsæktu fögur bæjarstæði á borð við Saksun og Kirkjubøur, kannaðu fuglalífið í Vestmannabjørgini, sjónhverfingar náttúrunnar við Sørvagsvátn, útsýnið frá vitanum Kallur á Kalsoy og lundabyggð á eynni Mykines. Fjölskrúðug náttúra og fjölbreytilegt mannlíf gefa ærið tilefni til að heimsækja nágranna okkar á norðlægum slóðum.