Flug til Brussel með Icelandair, verð frá
Ferðalag til Brussel
Ekki láta það orðspor sem fer af Brussel fyrir skrifræði skemma upplifun þína af þessari forvitnilegu borg. Sem helsta vígi Evrópusambandsins er Brussel staðsett í miðju heimsviðburða. Stórkostlegur matur og glæsileg torg setja borgina einnig í flokk áhugaverðustu áfangastaða.
Glæsileiki Grand Place
Það er eins og töfrar umljúki hið fræga Grand Place í Brussel. Byggingarlistin við hellulagt torgið er ævintýri líkust og hjúpar mann fortíðarþrá. Ríkmannleg samkomuhúsin eru frá síðari hluta 17. aldar, og ráðhúsið Hôtel de Villa, sem er frá 15. öld, er sannkallað konfekt fyrir augað. Komdu aftur að kvöldi til þegar ljósin umbreyta ásýnd húsanna og sveipa þau enn dulúðlegri blæ.
Frá Grand Place er stutt ganga í gömul, falleg hverfi – Ilôt Sacré og Sablon. Ef þú hefur enn ekki fengið nóg af byggingarlist getur þú kannað Notre Dame du Sablon, mikilfenglega síðgotneska kirkju frá 15. öld. Fjölmörg söfn eru í borginni og eitt þeirra er Musées Royaux des Beaux-Art. Hluti þess er tileinkaður verkum gömlu meistaranna, en þar er einnig deild til heiðurs verkum súrrealistans, art nouveau-listamannsins og heimamannsins Réne Magritte.
Meira en bara moules-frites
Belgía er ekki stórt land en hefur þrátt fyrir það haft mikil áhrif á bragðskyn matgæðinga og bjórunnenda út um allan heim. Belgískur bjór er dásamaður (sérstaklega Trappist-bjórar sem bruggaðir eru í munkaklaustrum) og sú frægð sem fer af borginni fyrir óviðjafnanlega gott súkkulaði, er rækilega verðskulduð.
Frægasti réttur Belga er vafalaust kræklingur og franskar eða moules-frites. Á svæðinu við fiskmarkaðinn á Ste-Catherine eru margir frábærir staðir þar sem hægt er að smakka þennan rétt sem og annað sjávarfang.
Hér finnur þú einnig bístró sem framreiða klassíska evrópska rétti á gömlum, viðarklæddum matsölustöðum í bland við háklassa veitingastaði prýdda Michelin-stjörnum. Nýjum kaffihúsum fjölgar ört í Brussel þar sem matur frá öllum heimshornum er á boðstólnum. Fyrir þá sem vilja gæða sér á belgískum götumat er tilvalið að koma við á friterie eða frietkot og fá sér einn skammt af frites en það eru franskar - sem Belgar segjast reyndar hafa fundið upp á, og ættu því með réttu að nefnast "belgískar".
Láttu bragðlaukana ráða för í Brussel
Það sem ætti að vera efst á innkaupalistanum: Súkkulaði, bjór og blúnda! Þetta eru algengustu belgísku minjagripirnir. Place du Grand Sablon er fallegt torg frá 17. öld og er eftirsóttasti staðurinn fyrir belgískt súkkulaði, en hér eru allir helstu chocolatiers með verslun. Það er stórskemmtilegt að ráfa um Sablon-hverfið en þar eru fjölmargar antíkbúðir og flottar verslanir. Um helgar rís svo markaður á torginu, þar sem spennandi antíkmunir og gamlar bækur eru á boðstólum.
Galeries Royales Saint-Hubert er frá 19. öld og þar eru margar fínar og glæsilegar verslanir enda húsnæðið sérstakt: yfirbyggð súlnagöng með glerþaki. Ef þig langar á götumarkaði þá er heppnin með þér! Í Brussel er mikið úrval af mörkuðum, allt frá blómasölum sem koma sér fyrir nokkrum sinnum í viku á Grand Place til stórra sunnudagsmarkaða við Gare du Midi-lestarstöðina.