Flug til Manchester með Icelandair, verð frá

Ferðalag til Manchester

Á Norður-Englandi úir og grúir af alls kyns skemmtilegheitum – iðandi borgarlífi með pöbbum, lifandi tónlist, forvitnilegum söfnum og veitingahúsum. Manchester er líflegur suðupottur (eins og nágrannaborgin Liverpool) og þar lifnar sagan við á hverju götuhorni, en margir sækja borgina einmitt heim til að votta hetjum íþrótta og tónlistar virðingu sína.

Icelandair býður ódýr flug til Manchester þar sem þú getur eytt eftirmiðdeginum á Old Trafford og fengið þér öl á næsta pöbb eða vakað alla nóttina á næturklúbbum borgarinnar.

Verksmiðjuarfleifð og fótboltaástríða

Iðnbyltingin hafði svo sannarlega áhrif á Manchester og á söfnum borgarinnar er hægt að upplifa nánast hvert smáatriði þess tíma. People’s History Museum gerir sögunni af uppgangi Manchester vel skil. Þar eru líka fjölmörg listagallerí, áhugavert stríðsminjasafn og eitt elsta almenningsbókasafn heims!

Á meðal nýrri safna borgarinnar er til að mynda National Football Museum, sem fer vel í saumana á því af hverju Manchester er það afl í fótbolta sem það er og hvað fótbolti þýðir fyrir heimafólk. Heimsókn á á Old Trafford, heimavöll Manchester United, er ómissandi þegar borgin er heimsótt (en leikvangurinn er einnig kallaður Draumaleikhúsið - Theatre of Dreams). Fyrir marga er það helgistund að ganga um leikvanginn sem tekur um 75.000 áhorfendur í sæti. Þú getur líka farið í skoðunarferð um Etihad Stadium, heimavöll Manchester City, og borið saman aðbúnaðinn og kynnt þér ríginn og eldheita samkeppnina á milli félagsliða borgarinnar.

Karrí og frumlegir, forvitnilegir staðir

Það er mikið um að vera í matarmenningu borgarinnar og þú átt eftir að borða vel, sérstaklega í hverfunum Spinningfields og Northern Quarter. Spinningfields er nútímalegt hverfi sem nýtur vaxandi vinsælda vegna veitingastaða og verslana, á meðan andrúmsloftið í Northern Quarter er bóhemískt og yfir hverfinu er skapandi yfirbragð.

Í miðbænum er nauðsynlegt að skoða hina ótrúlegu Corn Exchange – tilkomumikla byggingu frá 1903, tímum Játvarðs konungs. Nýtt líf hefur færst í bygginguna og nú er þar skemmtileg mathöll með fjölmörgum fínum veitingastöðum. Ef þú vilt eitthvað aðeins afslappaðara er hægt að sjá hvað er á boðstólum á „Curry Mile“,  en hún tekur upp hluta af Wilmslow Road, í miðju Rusholme-hverfisins í suðurhluta Manchester. Hér fá bragðlaukarnir að njóta sín með framandi matreiðslu frá Mið-Austurlöndum, en hún er bæði bragðgóð og frekar ódýr. 

Fótboltafjársjóðir, verslunarmiðstöðvar og margt fleira

Hörðustu aðdáendurnir – og jafnvel ömmur þeirra líka – geta fundið minjagripi í massavís og allt sem tengist fótbolta er fáanlegt hér. Það eru góð verslunarsvæði í miðbænum (nálægt Harvey Nichols og Selfridges), við King Street og Spinningfields-hverfið (ef þú vilt fara í betri verslanir og kaupa alþjóðleg vörumerki) og ekki má gleyma litlu, óháðu verslununum í Northern Quarter.

Kannaðu forvitnilegar vörur á Afflecks-innimarkaðinum í Northern Quarter – við erum að tala um vintage-fatnað, vínylplötur og alls konar óvenjulegar gersemar. Það er vel þess virði að heimsækja Manchester Craft & Design Centre þar sem hægt er að fá handverk úr textíl, skartgripi og keramik. Ef þú vilt villast um verslunarmiðstöðvar skaltu halda 8 km vestur af miðbænum, í átt að Trafford Centre. Þar eru þrjár stórvöruverslanir, kvikmyndahús, veitingastaðir og 200 smærri verslanir sem eiga eftir að lækna kaupæðið.