Flug til Mílanó með Icelandair, verð frá
Ferðalag til Mílanó
Ótrúleg list, ástríða fyrir tísku, gómsætur matur og knattspyrnustórveldi – Mílanó býður upp á þetta allt og margt fleira. Hvernig líst þér á dómkirkjur og kastala, tilvalda fyrir mannlífsskoðun, og falleg vötn í næsta nágrenni? Bellissima!
Icelandair býður upp á ódýr flug reglulega til Mílanó ef þú vilt sjá smá Da Vinci, smakka bragðgott risotto eða fara í góðan verslunarleiðangur (taktu kreditkortið með!).
Myndlist, höggmyndir og byggingarlist
Það þarf að bóka tíma með fyrirvara ef þú vilt berja helsta listaverk Mílanó augum og það er sannarlega þessi virði. Síðasta kvöldmáltíðin eftir Leonardo da Vinci var máluð á seinni hluta 15. aldar og það eru forréttindi að sjá þau í nærmynd. Þú getur uppgötvað fleiri listrænar gersemar í galleríinu Pinacoteca di Brera og samtímalistin laðar marga menningarmógúla að borginni.
Duomo, hin glæsilega dómkirkja Mílano er annað stórvirki. Hún er risastór, byggð úr marmara og hýsir undraverða steinda glerglugga. Fleiri listaverk prýða þak dómkirkjunnar, stórkostlegar styttur og turnspírur í bland við ótrúlegt útsýni. Ef þú kemur að kvöldi til getur þú séð annars konar helgistað; Teatro alla Scala er ein besta hljómleikahöll heimsins og innviðir hennar og innréttingar gullslegnar. Gestir eru fyrir bragðið vinsamlegast beðnir um að skella sér í betri fötin enda annað ekki við hæfi.
Buon appetito!
Við vitum að matur er mikilvægur þáttur í öllum Ítalíureisum. Mílanó bregst ekki bogalistin í þeim efnum, enda einkennisréttir borgarinnar ekki af verri endanum: Risotto alla milanese (auðvitað með miklu smjöri og ilmandi saffran) og svo auðvitað Cotaletta alla milanese (þunnar kálfakjötssneiðar í brauðhjúp, steiktar upp úr meira smjöri). Þú getur þefað upp allar trattoríurnar í hliðargötunum, öll skemmtilegu kaffihúsin og vínbarina sem og fjölmarga Michelin-stjörnu veitingastaði. Þú finnur góða veitingastaði meðal annars í hverfunum Porto Garibaldi, Brera og Navigli. Unga fólkið heldur aðallega til Porto Romana.
Til að koma matarlystinni af stað er nauðsynlegt að heimsækja Peck, verslun sem heimamenn hafa í hávegum, en hún hefur verið starfrækt frá árinu 1883. Auðvitað má ekki gleyma að fagna einnig hefðum heimamanna og fá sér aperitivo, lystaukandi drykk með bragðgóðum léttum veitingum. Þetta er hinn ítalski „happy hour“, með stíl.
Á toppi tískunnar
Áhugafólk um tísku ætti að íhuga að taka með sér tóma ferðatösku og fjölmenna í verslanirnar. Mílanó hefur um langt skeið verið ein af höfuðborgum hátískunnar í heiminum og stór ítölsk vörumerki eins og Prada, Armani, Versace og Valentino eiga höfuðstöðvar hér. Þú átt án efa eftir að dást að stíl heimamanna og þeirra einstaka göngulagi. Ef þú vilt versla eins og þeir skaltu taka stefnuna í fína verslunarhverfið Quadrilatero d’Oro (Gullni þríhyrningurinn), rétt norður af Duomo. Af einstökum götum er Via Monte Napoleone sú sem hýsir flestar hátískuverslanir.
Jafnvel þó þú sért ekki að sækja Mílanó heim til verslunarferða, þá skaltu stoppa við í Galleria Vittorio Emanuele II. Salir þessarar sögulegu verslunarmiðstöðvar eru frá 1860 og státa af glæsilegum arkítektúr. Ef þú vilt fá smá pásu frá verðmiðum merkjavara er gott að halda til stóru matvöruverslananna og smakka á einhverju góðgæti eða halda til hverfanna Brera og Navigli.