Ekkert jafnast á við göngutúr eða hjólaferð eftir veginum sem heimamenn kalla Tayelet.
Annar endi leiðarinnar er við gömlu höfnina í Jaffa til suðurs og hinn liggur að smábátahöfninni í norðri. Meðfram leiðinni liggja ótal strandir, barir og kaffihús þar sem má planta sér niður og fylgjast með sólsetrinu.
Ef þú vilt heldur sleppa við sandinn, má mæla með Gordon Pool, sjólaug sem er staðsett steinsnar frá smábátahöfninni við norðurenda Tayelet-leiðarinnar. Sömuleiðis er óhætt að mæla með Hayarkon garðinum, sem hentar vel fyrir lautarferðir, hjólreiðatúra og aðra útiveru.
Tel Aviv getur verið erilsöm og því getur verið hyggilegt að leita stöku sinnum út fyrir borgarmörkin. Til dæmis má mæla með dagsferð til hins forna virkis Masada, sem trónir á fjallstindi í miðri eyðimörkinni. Ferðamenn ýmist ganga á fjallið snemma morguns, áður en hitinn verður yfirgengilegur, eða taka kláfferjuna upp á topp. Svo má enda ferðina á heimsókn að ströndum hins brimsalta Dauðahafs.
Borgin Jersúalem er í aðeins 50 mínútna akstursfjarlægð frá Tel Aviv.